Fara í efni
Fréttir

Árlegir Dekurdagar að hefjast á Akureyri

Bærinn tekur á sig bleikan svip. Einstaklingum og fyrirtækjum gefst kostur á að kaupa bleika slaufu sem þessa og styrkja þar með Krabbameinsfélag Akureyrar. Mynd: Facebooksíða Dekurdaga

Hinir árlegu dekurdagar hefjast á Akureyri á morgun. Dagarnir marka upphaf hins bleika október, árveknismánuðar Krabbameinsfélagsins.

Það eru verslunareigendur á Akureyri sem standa að Dekurdögum með aðstoð Akureyrarbæjar en Dekurdagar voru fyrst haldnir árið 2008. Viðburðurinn er stór styrktaraðili Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis en sala á bleikum slaufum sem einstaklingar og fyrirtæki nota til að skreyta hjá sér hafa árlega skilað milljónum til Krabbameinsfélagsins. Nú þegar hafa margir fest kaup á slaufinni en enn er hægt að kaupa slaufu og geta áhugasamir haft samband á dekurdagar@akureyri.is

Að vanda verður ýmislegt um að vera á Akureyri um helgina í tilefni Dekurdaganna. Fjölmargir viðburðir verða í boði og verslanir, veitingahús og önnur þjónustufyrirtæki bjóða upp á dekurleg tilboð og sumir upp á léttar veitingar. Kvöldopnun verður á Glerártorgi á fimmtudagskvöldið og í miðbænum á föstudagskvöldið.

Hér má sjá dagskrá Dekurdaganna en einnig er um að gera að fylgjast með á Facebook síðu Dekurdaganna


Fyrirtæki í miðbæ Akureyrar eru farin að gera klárt fyrir Dekurdagana sem standa yfir dagana 3.-6. október. Kvöldopnun verður í miðbænum á föstudagskvöld og á Glerártorgi á fimmtudagskvöld.