Fara í efni
Fréttir

Áramótabrennan vestan við golfvöllinn

Áramótabrenna Akureyringa verður á nýjum stað að þessu sinni en flugeldasýning björgunarsveitarinnar Súlna verður hins vegar skammt frá höfuðstöðvum Norðurorku eins og verið hefur í mörg ár.

„Ljóst var snemma í haust að færa þyrfti áramótabrennu Akureyringa vegna breyttra aðstæðna og framkvæmda á svæðinu við Réttarhvamm. Ýmsir möguleikar voru skoðaðir en loks ákveðið að brennan verði á auðu og óbyggðu svæði á Jaðri nokkru sunnan við golfskálann,“ segir í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Á meðfylgjandi loftmynd má sjá brennustæðið, við suðvesturhorn svæðis golfklúbbsins að Jaðri. Hér eru líka svæði merkt P þar sem leggja má fararstækjum og sjá má gönguleiðir að brennunni. Kveikt verður í myndarlegri brennu á þessum stað kl. 20.30 á gamlárskvöld, segir á vef bæjarins.

„Þótt færa hafi þurft brennuna þá verður árleg flugeldasýning á gamlárskvöld á sínum stað skammt frá höfuðstöðvum Norðurorku og hefst hún um kl. 21.00. Það er Björgunarsveitin Súlur sem sér um sýninguna en hún er í boði Norðurorku,“ segir á vef Akureyrarbæjar.

Þar segir einnig: „Förum varlega með skotelda um áramót og munum að hirða upp eftir okkur flugeldarusl og koma í viðeigandi flokkun. Flugeldarusl má alls ekki fara í blandaðan heimilisúrgang. Sérstökum gámum fyrir það verður komið fyrir við verslanir Bónus í Naustahverfi og Langholti sem og við grenndarstöð norðan við Ráðhús.“

Smellið hér til að sjá myndina stærri.