Fara í efni
Fréttir

Anna Júlíusdóttir nýr formaður Einingar-Iðju

Anna Júlíusdóttir, varaformaður verkalýðsfélagsins Einingar-Iðju, tekur við sem formaður á næsta aðalfundi í lok aprílmánaðar. Björn Snæbjörnsson lætur þá af formennsku eftir 31 ár á þeim stóli. 

Sjálfkjörið í stjórn félagsins

Í gær rann út frestur til að skila inn lista eða tillögum um fólk í stjórnarsæti vegna kjörs stjórnar og trúnaðarráðs fyrir starfsárið 2023-2024. Ekki bárust tillögur eða listar aðrir en frá trúnaðarráði og teljast þeir félagsmenn sem trúnaðarráð hefur gert tillögu um sjálfkjörnir. Listi trúnaðarráðs tekur því við félaginu á næsta aðalfundi sem fram fer mánudaginn 24. apríl, að því er segir á vef félagsinsd í morgun.

Trúnaðarráð félagsins gerði tillögu um Önnu Júlíusdóttur, núverandi varaformann félagsins, sem formann og mun hún því taka við formannstitlinum til næstu tveggja ára á aðalfundinum. Anna hefur setið sem varaformaður félagsins frá árinu 2012, en áður hafði hún setið í stjórn sem formaður Matvæladeildar og síðar formaður Matvæla- og þjónustudeildar frá árinu 2001.

Þakklát fyrir traustið

Anna segist vera þakklát fyrir traustið og að hún viti að erfitt verður að feta í fótspor núverandi formanns. „Ég mun leggja mig fram um að sinna hlutverki mínu eins vel og ég get og hlakka til að vinna áfram með félagsmönnum ásamt góðum hópi stjórnar og starfsfólks að okkar mikilvægu málum,“ segir hún á vef Einingar-Iðju.

Mikil ánægja hefur ríkt með félagið, þjónustuna og störf stjórnar félagsins í viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið undanfarin ár, segir á vef félagsins í morgun. 

Nánar hér á vef Einingar-Iðju