Fara í efni
Fréttir

Andrés önd kemur með 47. sumarið

Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Vetur konungur kveður á miðnætti og sumarið tekur völdin, enn einn ganginn. Drottningin sú hefur gjarnan glatt Akureyringa og nærsveitamenn með nærveru sinni og vonandi kemur hún fagnandi í þetta skipti.

Í tæplega hálfa öld hefur ein þekktasta önd bókmenntasögunnar, Andrés, verið óformlega í fylgdarliði drottningar en aldrei staldrað lengi við; boðið gott kvöld á síðasta degi vetrar og horfið á braut á ný strax um helgina.

Andrésar andar leikarnir á skíðum voru settir við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld eftir skrúðgöngu frá Lundarskóla, eins og hefð er fyrir. Leikarnir, stærsta skíðamót hvers árs, eru nú haldnir í 47. skipti. Keppendur eru liðlega 800, þar á meðal þessi glaðlega stúlka úr Ármanni í Reykjavík á myndinni að ofan.

Frétt Akureyri.net fyrr í dag: Þúsundir vina Andrésar andar komnir í bæinn

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson