Andlát: Svanur Eiríksson arkitekt
Svanur Eiríksson arkitekt er látinn, 79 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri 26. maí 1943 og lést þar síðastliðinn sunnudag, 6. nóvember.
Foreldrar Svans voru Eiríkur Vigfús Guðmundsson kjötiðnaðarmeistari frá Hróastöðum í Öxarfjarðarhreppi og Anna Sigurveig Sveinsdóttir húsmóðir frá Eyvindará, Eiðahreppi.
Eiginkons Svans er Erla Hólmsteinsdóttir tækniteiknari. Foreldrar hennar voru Hólmsteinn Egilsson forstjóri Malar og Sands á Akureyri og Margrét Sveinbjörnsdóttir frá Hámundarstöðum í Vopnafirði.
Börn Svans og Erlu eru Hólmar sem kvæntur er Eyrúnu Svövu Ingvadóttur, Sunna sem gift er Sævari Péturssyni og Eiríkur, kona hans er Elísabet Björk Björnsdóttir.
Svanur varð stúdent frá MA 1963 og hóf sama haust nám við Technische Hochschule í München í Þýskalandi. Tók lokapróf þaðan, (Dipl.-Ing.) 1971 og var í sérnámi í borgarskipulagsfræðum við sama skóla 1970- 1972. Starfaði með skóla og eftir það á ýmsum teiknistofum við byggingar og skipulag, m.a. við Ólympíuþorpið í München. Eftir heimkomu fjölskyldunnar 1973 starfaði hann á Vinnustofunni Veltusundi til 1976 er hann hóf eigin starfssemi á Akureyri. Rak síðan Arkitekta- og verkfræðistofuna þar í bæ með Haraldi V. Haraldssyni arkitekt og Davíð Arnljótssyni verkfræðingi á árunum 1977-1981. Rak hann síðan eigin teiknistofu í Hofsbót.
Helstu verk Svans eru Glerárkirkja á Akureyri, Höfðakapella með líkhúsi á Akureyri og Grunnskólinn í Reykjahlíð. Hann var um árabil félagi í Lionsklúbbnum Huginn og síðar í Oddfellowstúkunni Sjöfn. Svanur var ræðismaður (konsúll) Þýskalands í tæp 30 ár, 1979-2008. Hann var sæmdur heiðursorðunni Verdienstkreuz der Bundesrepublik, I. Klasse árið 1998 fyrir störf sín í þágu Þýskalands.