Andlát: Siguróli Magni Sigurðsson
Siguróli Magni Sigurðsson lést að morgni föstudagsins 14. júlí, níræður að aldri. Hann fæddist árið 1932 á Akureyri.
Foreldrar Siguróla voru Klara Nielsen og Sigurður Eiríksson. Systkini hans eru Sólveig Bjartmarz, Magnúsína, Valgarður Jóhann, Steinþór og Inga Sigríður.
Eiginkona Siguróla er Sigurlaug Jónsdóttir. Börn þeirra eru þrjú: Regína Margrét fædd 1956, gift Steinari Óla Gunnarssyni, Klara Sólveig, sem fædd er 1961, og Magnús Sigurður fæddur 1964, kvæntur Valgerði Davíðsdóttur. Áður eignaðist Siguróli dótturina Bergþóru.
Börn Regínu Margrétar og Steinars Óla eru Linda, Sigrún, Sævar, Sonja og Gunnar Torfi. Klara Sólveig á Silju Baldersheim og börn Magnúsar Sigurðar og Valgerðar eru Júlía, Davíð, Siguróli Magni og Jón Heiðar.
Elsta barn Siguróla, Bergþóra, á dótturina Maggie.
Siguróli bjó alla ævi á Akureyri. Hann var alinn upp á Eyrinni og bjó þar fyrstu áratugina en á Brekkunni síðan 1971. Hann lærði bókband og vann hjá Prentsmiðju Odds Björnssonar, starfaði síðan hjá JMJ en hjá Skeljungi í liðlega aldarfjórðung áður en hann settist í helgan stein árið 2002.
Siguróli var liðtækur knattspyrnumaður og lék bæði með KA og ÍBA. Hann innti mörg sjálfboðaliðastörf af hendi fyrir KA, sat m.a. í stjórn knattspyrnudeildar og kom að stofnun Essó-mótsins (nú N1). Hann var sæmdur gullmerki félagsins árið 2008 og var gerður að heiðursfélaga KA 10 árum síðar. Siguróli hlaut einnig heiðursviðurkenningu íþróttaráðs Akureyrar og ÍBA.