Fara í efni
Fréttir

Andlát: Ólafur Þ. Jónsson – Óli kommi

Ólaf­ur Þ. Jóns­son, skipa­smiður og fyrr­ver­andi vita­vörður, lést síðastliðinn fimmtudag, 23. nóv­em­ber, á Ak­ur­eyri. Hann var 89 ára.

Ólafur var róttækur vinstri maður og gjarnan kallaður Óli kommi. Hann var í Fylk­ing­unni á árum áður og síðar í Alþýðubanda­lag­inu. Ólafur var meðal stofn­enda Vinstri­hreyf­ing­ar­inn­ar – græns fram­boðs (VG) og var gerður að heiðurs­fé­laga flokks­ins. 

Ólaf­ur fædd­ist í Reykja­vík 14. júní 1934 og ólst þar upp. For­eldr­ar hans voru Jón Boga­son bryti og Þór­dís Finns­dótt­ir hús­freyja. Hún lést árið 1939 og faðir hans fórst með Detti­fossi árið 1945.

Ólaf­ur stundaði nám á Laug­ar­vatni og síðar í Bænda­skól­an­um á Hvann­eyri, þar sem hann lauk bú­fræðings­prófi. Hann starfaði sem sjó­maður og verkamaður í nokk­ur ár, var seinna blaðamaður og aug­lýs­inga­stjóri á Þjóðvilj­an­um og kenndi í grunn­skól­un­um á Borg­ar­f­irði eystri og Þing­eyri. Eftir að Ólafur flutti til Akureyrar vann hann við prófarkalestur á Degi, starfaði hjá Landgræðslunni á sumrin og rak í nokkur ár gistiheimili ásamt eiginkonu sinni.

Þekkt­ast­ur var Ólaf­ur fyr­ir störf sín sem vita­vörður og veður­at­hug­un­ar­maður á Vestfjörðum. Hann var vita­vörður í Sval­vog­um, síðan í Galt­ar­vita og loks var hann við vita­vörslu og veður­at­hug­an­ir í Horn­bjargsvita. Þar lauk hann störf­um 1995 er sjálf­virk­ar mæl­ing­ar tóku við.

Eft­ir­lif­andi eig­in­kona Ólafs er Svandís Geirs­dótt­ir en hann eignaðist sjö börn með tveim­ur fyrri eig­in­kon­um. Af­kom­end­ur hans eru 25 tals­ins.

Útför Ólafs fer fram frá Gler­ár­kirkju á Ak­ur­eyri mánu­dag­inn 4. des­em­ber kl. 13.