Fara í efni
Fréttir

Andlát: Ólafur Gísli Hilmarsson

Ólafur Gísli Hilmarsson, viðskiptastjóri hjá Pennanum húsgögnum, er látinn eftir stutta baráttu við krabbamein, 58 ára að aldri. Hann fæddist á Akureyri 12. febrúar 1967 og lést á Landspítalanum við Hringbraut 21. apríl síðastliðinn.

Foreldrar hans voru Ingibjörg Þorvaldsdóttir, húsmóðir og móttökuritari, f. 1938 d. 2021 og Hilmar Henry Gíslason, bæjarverkstjóri, f. 1936 d. 2021.

Alsystkini Ólafs Gísla eru Þorvaldur Kristinn f. 1965, eiginkona hans er Alda Ómarsdóttir f. 1978, og Kristín f. 1969, eiginmaður hennar er Jóhannes Gunnar Bjarnason f. 1962. Dóttir Hilmars er Guðveig Jóna f. 1962, maki hennar er Stefán Örn Ástvaldsson f. 1958.

Eiginkona Ólafs Gísla er Eva Sif Heimisdóttir f. 1969. Foreldrar hennar eru Guðrún S. Frederiksen f. 1946 og Heimir Svavarsson f. 1950 d. 2024. Börn Ólafs og Evu eru 1) Alma Karen Knútsdóttir f. 1996, sambýlismaður hennar er Jón Pétur Þorsteinsson f. 1992. Sonur þeirra er Þorsteinn Flóki 2) Daníel Þór Knútsson f. 1997, sambýliskona hans er Elva Margrét Elíasdóttir f. 2001. 3) Eva Kristín f. 2008 og 4) Emma Guðrún f. 2011.

Ólafur Gísli, alltaf kallaður Óli, varð stúdent frá VMA 1989. Fljótlega eftir það gerðist hann háseti hjá Samherja og starfaði á skipum félagsins allt þar til leiðin lá til Reykjavíkur í því skyni að hefja nám í Tækniháskólanum árið 2000. Þaðan útskrifaðist Óli með B.Sc. gráðu í iðnrekstrarfræði með áherslu á vörustjórnun.

Óli starfaði sem framleiðslustjóri og viðskiptastjóri hjá auglýsingastofunni Góðu fólki, hann var framkvæmdastjóri markaðs- og sölusviðs Securitas, um árabil var hann markaðsráðgjafi á Íslensku auglýsingastofunni og samhliða því var hann markaðsstjóri Strætó BS en síðustu ár var Óli viðskiptastjóri hjá Pennanum húsgögnum.

Ólafur Gísli var fjölhæfur íþróttamaður. Hann var mikill Þórsari og lék bæði handbolta og fótbolta fyrir félagið, frá unga aldri keppti hann líka á skíðum fyrir Skíðaráð Akureyri og á síðari árum átti golfið hug hans allan.

Óli og Eva hafa búið í Mosfellsbæ frá 2007. Óli tók virkan þátt í uppbyggingu handknattleiksdeildar Aftureldingar og var t.d. formaður barna- og unglingaráðs deildarinnar síðustu ár.

Útför Ólafs Gísla fer fram frá Digraneskirkju í Kópavogi miðvikudaginn 30. apríl kl. 13.