Andlát: Jónas Vigfússon
Jónas Vigfússon verkfræðingur lést við smalamennsku í hlíðum Hagárdals að norðanverðu, innarlega í Eyjafjarðarsveit, 2. september sl., 71 árs að aldri. Áður hafði verið greint frá nafni hins látna en ítarleg frétt um Jónas birtist í Morgunblaðinu og á mbl.is í dag.
Þar segir meðal annars:
Hagárdalur er innan við bóndabæinn Litla-Dal þar sem hann hefur verið bóndi síðan 1977 ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Thorberg.
Jónas fæddist í Reykjavík 13. nóvember 1951, sonur Vigfúsar Guðmundssonar húsasmíðameistara og Guðrúnar Elínar Jónasdóttur húsfreyju. Hann var uppalinn í Reykjavík og fór öll sumur í sveit frá 6 ára aldri, fyrst á Jódísarstöðum og síðar sem unglingur á Höskuldsstöðum í Eyjafirði.
Jónas gegndi á starfsferli sínum mörgum og fjölbreyttum störfum. Árið 1976 fluttist hann til Akureyrar 1976 og hóf störf hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. (VST). Árin 1988-1991 starfaði hann hjá Sæplasti hf. sem hönnuður og sölumaður og sem framleiðslustjóri Yleiningar í Biskupstungum.
Jónas var sveitarstjóri í Hrísey frá 1991 – 1996 en flutti þá á Kjalarnes og starfaði sem sveitarstjóri, byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi til 2001. Á árunum 2001-2006 starfaði hann sem verkefnastjóri gatna-, fráveitu- og hreinlætismála og svo sem deildarstjóri á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar. 2006-2008 starfaði hann sem staðarverkfræðingur Loftorku ehf. á Akureyri.
Á árunum 2009-2014 var hann sveitarstjóri og skipulagsfulltrúi Eyjafjarðarsveitar og 2015-2020 starfaði hann sem verkefnastjóri teikninga og landupplýsinga á framkvæmdadeild Akureyrarbæjar og sem forstöðumaður Umhverfismiðstöðvar Akureyrarbæjar. Síðan helgaði hann sig bústörfum í Litla- Dal, félagsmálum og vann sjálfstætt við hönnun bygginga og skipulagsmála til dauðadags.
Þau hjónin, Jónas og Kristín Thorberg, hjúkrunarfræðingur og iðjuþjálfi með meiru, eignuðust tvær dætur; Auði Thorberg, sem er gift Óskari Þór Vilhjálmssyni, og Helgu, sem er gift Hreini Þór Haukssyni. Barnabörnin voru orðin sjö.
Nánar hér á mbl.is