Andlát: Jón Geir Ágústsson
Jón Geir Ágústsson byggingartæknifræðingur og fyrrverandi byggingarfulltrúi á Akureyri er látinn á 90. aldursári. Hann var fæddur 7. ágúst 1935 á Tjörn í Ólafsfirði og lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 10. desember síðastliðinn.
Eiginkona Jóns Geirs var Heiða Þórðardóttir húsmóðir. Hún lést 2022. Börn þeirra eru Signý sjúkraþjálfari fædd 1958, Þórður þjónustustjóri á Sólheimum í Grímsnesi fæddur 1959, Margrét leirlistakona fædd 1961, Þórdís listakona fædd 1964, María Sigríður listakona fædd 1969 og Jóhann Heiðar hönnunarstjóri CCP fæddur 1974.
Foreldrar Jóns Geirs voru Margrét Magnúsdóttir húsmóðir og Ágúst Jónsson byggingameistari. Börn Margrétar og Ágústs voru fjögur: Magnús var elstur, fæddur 1928, eiginkona hans var Pernille Allette Hoddevik og eru þau bæði látin; María Sigríður var fædd 1929, eiginmaður hennar var Haraldur S. Magnússon og þau eru einnig bæði látin. Yngst barna Margrétar og Ágústs er Halldóra Sesselja sem gift er Hauki Haraldssyni.
Jón Geir lærði byggingartæknifræði í Noregi og starfaði í kjölfarið hjá Akureyrarbæ allan sinn starfsferil, lengst af sem byggingarfulltrúi. Hann var einn af stofnfélögum Myndlistafélags Akureyrar og lagði stund á hinar ýmsu listgreinar sem veittu honum mikla ánægju allt til síðasta dags. Hann teiknaði einnig fjölda húsa á Akureyri, bæði opinberar byggingar og íbúðarhús.
Útför Jóns Geirs fer fram frá Akureyrarkirkju þann 19. desember næstkomandi kl. 13:00.