Andlát: Helga Haraldsdóttir
Helga Haraldsdóttir, starfsmaður rannsóknadeildar Sjúkrahússins á Akureyri til áratuga og jógakennari, er látin áttræð að aldri. Helga fæddist á Akureyri 19. mars 1943 og lést á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð 27. júlí síðastliðinn.
Foreldrar hennar voru Sigríður Pálína Jónsdóttir og Haraldur Sigurgeirsson. Systkini Helgu eru Agnes Guðný, sem er látin, og Sigurgeir.
Fyrri eiginmaður Helgu var Skúli Gunnar Ágústsson, dætur þeirra eru Agnes Heiða og Auður Helga.
Seinni eiginmaður Helgu var Alfreð Almarsson, sonur þeirra er Almar.
Barnabörn Helgu eru sjö og langömmubörnin eru níu.
Helga var góð íþróttakona á yngri árum og æfði margar íþróttir, m.a. sund og handbolta. Hún var KA manneskja fram í fingurgóma. Helga var einungis 14 ára þegar hún kynntist jóga fyrst og heillaðist af jógafræðunum. Hún fór til New York árið 1995 í jógakennaranám og átti jógað hug hennar allan upp frá því. Hún kenndi jóga í tæp 30 ár, einnig lærði hún höfuðbeina- og spjaldhryggsmeðferð og stundaði það í nokkur ár.
Helga vann við verslunarstörf á sínum yngri árum og síðan á Sjúkrahúsinu á Akureyri frá 1972 þar til hún hætti vegna aldurs. Helga var mikilvirkur áhugaljósmyndari og í hópi kvenna sem myndaði félagsskapinn ÁLFkonur (ÁhugaLjósmyndaraFélag fyrir konur) á Akureyri. Eftir hana liggur fjöldi fallegra ljósmynda.
Útför Helgu fer fram frá Akureyrarkirkju 9. ágúst klukkan 13.00.