Andlát: Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson fyrrverandi kennari og skólastjóri er látinn 86 ára að aldri. Hann fæddist í Reykjavík 3. nóvember 1937 og lést á Akureyri 15. janúar síðastliðinn.
Foreldrar Hauks voru Ágúst Jónsson járnsmiður og vélstjóri og Guðbjörg Helga Vigfúsdóttir húsfreyja.
Haukur var kvæntur Hildu Torfadóttur talmeinafræðingi og grunnskólakennara sem lést 2019. Haukur og Hilda voru búsett á Akureyri frá árinu 1985. Þau eiga einn son, Ágúst Torfa Hauksson verkfræðing sem fæddur er 1974. Kona hans er Eva Hlín Dereksdóttir og eiga þau þrjár dætur, Ragnhildi Eddu, Bryndísi Evu og Hildu Kristínu. Haukur á eina systur, Katrínu Helgu Ágústsdóttur sem gift er Stefáni Halldórssyni.
Haukur Ágústsson varð stúdent frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1959, lauk Cand. theol prófi frá guðfræðideild Háskóla Íslands 1968 og B.A. prófi í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla tveimur árum síðar. Hann stundaði einnig tónlistarnám og lauk kennaraprófi frá tónmenntakennaradeild Tónlistarskóla Reykjavíkur 1977.
Haukur hóf störf sem kennari haustið 1959 við Barna- og unglingaskólann á Patreksfirði og starfaði við kennslu til ársins 1972. Næstu átta ár þjónaði Haukur sem prestur að Hofi í Vopnafirði. Hann var skólastjóri Alþýðuskólans á Eiðum 1980 - 1981 og skólastjóri Héraðsskólans á Laugum 1981 - 1985. Haukur kenndi við Gagnfræðaskóla Akureyrar 1985 - 1989 og við Verkmenntaskólann á Akureyri 1989 - 2002, var kennslustjóri öldungadeildar VMA 1995 - 1999 og kennslustjóri fjarkennslu 1995 - 2002.
Haukur var starfsmaður Svæðisútvarps Norðurlands 1986 -1988 og hafði umsjón með ýmsum þáttum í Ríkisútvarpinu um málefni menningar og lista samhliða umsjón svæðisútvarps.
Hann starfaði mikið að félags- og menningarmálum í áratugi. Var til dæmis svæðisformaður Hins íslenska kennarafélags á Norðurlandi eystra 1994 - 2000, formaður Menor, Menningarsamtaka Norðurlands, 1986 - 1992 og var ritstjóri Súlna, rits Sögufélags Eyjafjarðar, 2005 - 2012. Haukur tók virkan þátt í leiklistarstarfsemi áhugaleikfélaga, m.a. sem leikstjóri og leikritahöfundur á Patreksfirði 1959–1960 og á Vopnafirði 1972–1980.
Haukur ritaði greinar og umfjöllun um listviðburði árum saman í dagblaðið Dag á Akureyri og fjallaði um menningarmál á öllu Norðurlandi. Hann skrifaði einnig greinar og pistla um menntamál í hinum ýmsu dagblöðum og tímaritum.