Andlát: Hallgrímur Skaptason
Hallgrímur Skaptason, skipasmiður og framkvæmdastjóri á Akureyri, er látinn 84 ára að aldri. Hann fæddist á Grenivík 23. desember 1937 og lést á Kristnesspítala í fyrrinótt, aðfararnótt þriðjudags 27. september.
Eiginkona Hallgríms var Heba Ásgrímsdóttir ljósmóðir sem lést 8. nóvember 2021. Börn þeirra eru Skapti, kvæntur Sigrúnu Sævarsdóttur, Guðfinna Þóra, gift Sigurði Kristinssyni og Ásgrímur Örn, kvæntur Lenu Rut Birgisdóttur. Dóttir Hallgríms og Ingibjargar Sigurðardóttur er Sólveig, sambýlismaður hennar er Birgir Þór Jónsson.
Foreldrar Hallgríms voru Guðfinna Hallgrímsdóttir húsmóðir og Skapti Áskelsson, skipasmiður og framkvæmdastjóri. Bróðir Hallgríms var Brynjar Ingi Skaptason fæddur 1945. Hann lést 2015.
Hallgrímur nam skipasmíði og starfaði um árabil í Slippstöðinni hf. þar sem hann var náinn samstarfsmaður föður síns, Skapta í Slippnum, eins stofnenda fyrirtækisins og framkvæmdastjóra þess. Árið 1971 stofnaði Hallgrímur bátasmiðjuna Vör hf. ásamt fimm samstarfsmönnum úr Slippstöðinni og var framkvæmdastjóri þar til fyrirtækið hætti starfsemi um miðjan tíunda áratuginn. Eftir það tók hann að sér verkstjórn og ýmis ráðgjafastörf og var starfsmaður Frímúrareglunnar á Akureyri.
Hallgrímur starfaði mikið og lengi fyrir íþróttafélagið Þór og var heiðursfélagi þess.