Fara í efni
Fréttir

Andlát: Gísli Bragi Hjartarson

Gísli Bragi Hjartarson, múrarameistari og fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri, er látinn. Gísli Bragi fæddist á Akureyri 20. ágúst 1939 og lést síðastliðinn þriðjudag, 21. janúar, á 86. aldursári.

Eiginkona Gísla Braga er Aðalheiður Alfreðsdóttir. Þau gengu í hjónaband 1. janúar árið 1960 og áttu því 65 ára brúðkaupsafmæli á fyrsta degi þessa árs – króndemantabrúðkaup. Börn Aðalheiðar og Gísla Braga eru sex; Lilja er yngst en áður höfðu þau eignast fimm syni, sem allir voru landsliðsmenn í íþróttum. Þeir eru, Hjörtur, Alfreð, Gunnar og tvíburabræðurnir Garðar og Gylfi.

Foreldrar Gísla Braga voru hjónin Lilja Sigurðardóttir húsmóðir og Hjörtur Gíslason verkamaður og rithöfundur. Systkini hans eru Anna Ingibjörg, sem er látin, Sigurður, sem einnig er látinn, Hjörtur Hreinn og Reynir.

Gísli Bragi gekk ungur til liðs við Alþýðuflokkinn og var bæjarfulltrúi á Akureyri í þrjú kjörtímabil fyrir flokkinn, frá 1986 til 1998.

Gísli Bragi var kunnur íþróttamaður á árum áður. Hann keppti bæði á skíðum og í frjálsíþróttum og sat um tíma í aðalstjórn Íþróttafélagsins Þórs. Hann stundaði golf í áratugi og tók einnig að sér trúnaðarstörf á þeim vettvangi; var formaður Golfklúbbs Akureyrar frá 1984 til 1986 og framkvæmdastjóri klúbbsins frá 1990 til 1995. Gísli Bragi var heiðursfélagi GA.