Fara í efni
Fréttir

Andlát: Dagbjört Elín Pálsdóttir

Dagbjört Elín Pálsdóttir, sjúkraliði og fyrrverandi bæjarfulltrúi á Akureyri, er látin aðeins 43 ára að aldri. Dagbjört var fædd 1. september 1980. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu aðfararnótt 18. október.

Foreldar Dagbjartar eru Páll Jóhannesson og Margrét Hólmfríður Pálmadóttir. Systkini hennar eru Sölmundur Karl fæddur 1984 og Snævar Óðinn fæddur 1990.

Dagbjört giftist Jóhanni Jónssyni árið 2000 og áttu þau saman fjögur börn. Þau eru Margrét Birta (fædd 2000), Elín Alma (2001), Jón Páll (2005) og Hólmfríður Lilja (2009). Dagbjört og Jóhann skildu árið 2018. Eftirlifandi eiginmaður Dagbjartar er Þórarinn Magnússon. Þau giftust í desember árið 2020.

Dagbjört útskrifaðist sem sjúkraliði frá Verkmenntaskólanum á Akureyri og tók stúdentspróf að loknu sjúkraliðanámi. Hún útskrifaðist frá Háskólanum á Akureyri með B.SC í félagsvísindum 2014 og náði sér í diplóma í áfengis- og vímuefnamálum frá Háskóla Íslands 2021.

Dagbjört Elín starfaði á árum áður á Sjúkrahúsinu á Akureyri og í öryggisvistun í Hafnarstræti. Hún var bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar frá 2016 til 2019. Dagbjört starfaði til síðasta dags á Hjúkrunarheimilinu Lögmannshlíð.