Andlát: Árni Sævar Jónsson
Árni Sævar Jónsson, grunnskólakennari, golfkennari og fv. framkvæmdastjóri er látinn 81 árs að aldri. Hann fæddist á Akureyri 20. apríl 1943 og lést á Hjúkrunarheimilinu Hlíð þann 28. júní síðastliðinn.
Foreldrar Árna Sævars voru hjónin Jón Halldór Oddsson, húsgagnasmíðameistari og Sigurveig Sigríður Árnadóttir, húsmóðir.
Systkini Árna Sævars voru Árni f. 1940 d. 1942 og Sigríður f. 1947.
Eftirlifandi eiginkona Árna er Ólína Steindórsdóttir f. 1939. Þau gengu í hjónaband árið 1963 og eignuðust fjögur börn: 1) Arnar f. 1959 er kvæntur Steinunni Elsu Níelsdóttur og eiga þau tvö börn og fimm barnabörn; 2) Sigurveig f. 1965 er gift Herði Árnasyni og eiga þau þrjú börn og tíu barnabörn, 3) Árný Lilja f. 1970 er gift Rafni Inga Rafnssyni og eiga þau tvo syni; 4) Jón Steindór f. 1975 er kvæntur Árdísi Elfu Ragnarsdóttur og eiga þau tvö börn.
Árni Sævar bjó alla tíð á Akureyri. Hann starfaði meðal annars sem verslunarstjóri hjá Kaupfélagi Eyfirðinga og sem framkvæmdastjóri hjá Eini hf., húsgagnaverslun og verkstæði sem faðir hans stofnaði ásamt fleirum. Árni Sævar settist síðar á skólabekk á ný, lauk kennaranámi og starfaði sem grunnskólakennari á Akureyri til loka starfsævinnar.
Golf skipaði stóran sess í lífi Árna Sævars. Hann gekk í Golfklúbb Akureyrar um 1950 og var viðloðandi klúbbinn upp frá því, sat m.a. í stjórn 1967-1979 og var framkvæmdastjóri 1984-1989. Árni Sævar var heiðursfélagi í Golfklúbbi Akureyrar.
Árni varð Akureyrarmeistari í golfi 1975 og „í öðru sæti oftar en hann kærir sig um að muna,“ eins og segir á heimasíðu GA. Hann er þó án efa kunnastur í golfheiminum sem kennari. Árni Sævar hóf að þjálfa börn og unglinga í greininni árið 1972 og sinnti golfþjálfun með góðum árangri í áratugi á Akureyri, Sauðárkróki, Mosfellsbæ, Dalvík og víðar.