Andlát: Aðalbjörg Hafsteinsdóttir
Aðalbjörg Hafsteinsdóttir, lífeindafræðingur og jógakennari, er látin fyrir aldur fram, aðeins 64 ára, eftir átta ára baráttu við krabbamein.
Aðalbjörg var fædd 11. janúar 1959 í Syðri-Gróf í Villingaholtshreppi og lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi þriðjudaginn 8. ágúst.
Eiginmaður Aðalbjargar er Ólafur Óskar Óskarsson og eiga þau dótturina Þóru.
Foreldrar Aðalbjargar voru Ragnhildur Ingvarsdóttir og Hafsteinn Þorvaldsson. Systkini hennar eru Þorvaldur, Ragnheiður, Þráinn og Vésteinn. Fjölskyldan flutti á Selfoss þegar Aðalbjörg var mjög ung og þar óx hún úr grasi.
Aðalbjörg og Ólafur bjuggu í aldarfjórðung á Akureyri. Þau störfuðu fyrst í stað hjá Sjálfsbjörg en fóru síðan út sjálfstæðan rekstur og ráku Bjarg - líkamsrækt í 15 ár; voru þá gjarnan kölluð Abba og Óli á Bjargi. Aðalbjörg starfaði í 10 ár á rannsóknarstofu Sjúkrahússins á Akureyri meðfram kennslu. Þau seldu Bjarg fyrir nokkrum árum og settust að á höfuðborgarsvæðinu. Eftir það starfaði Aðalbjörg mest við jógakennslu, bæði hjá World Class og Hjartastöðinni.
Aðalbjörg er af mikilli íþróttafjölskyldu; faðir hennar var lengi formaður Ungmennafélags Íslands, og bræður hennar, Þráinn og Vésteinn, eru kunnir íþróttamenn og þjálfarar. Sjálf var Aðalbjörg landsliðskona í 800 m og 1500 m hlaupi. Hún hefur verið varaformaður Frjálsíþróttasambands Íslands undanfarið.