AMARO skiltið fjarlægt í morgun
Amaro-skiltið utan á Hafnarstræti 99 var tekið niður í morgun og líklega brá einhverjum í brún, því segja má að það hafi verið eitt af kennileitum miðbæjarins í áratugi. Enginn þarf þó að örvænta því A M A R O verður komið aftur á sinn stað innan tíðar, hvítt letur á fagurrauðum, hringlaga fleti, fest með bláum járnteinum.
Starfsmenn Geimstofunnar og Íslenskra rafverktaka voru að störfum í morgun við Amaro-húsið, sem flestar nefna enn svo þótt verslunin sé löngu hætt starfsemi. Það á sem sagt að endurnýja skiltið, það verður sprautulakkað og komið fyrir neonlýsingu. Upphaflega var það ljósaskilti en langt er síðan slökknaði á þeirri peru. Eftir að skiltið var tekið niður í morgun var það flutt á réttinga- og sprautuverkstæðið Bílaprýði þar sem það verður klætt í sparifötin áður en það birtist gestum og gangandi á gamla staðnum á nýjan leik.
Húsið Hafnarstræti 99 virkar hálfskrýtið án AMARO skiltisins, í huga þeirra sem ekki þekkja miðbæ Akureyrar án þessa kennileitis!
AMARO skiltið bíður fegrunaraðgerðar í Bílaprýði í morgun. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.
Skiltið tekið niður í morgun. Ljósmynd: Tryggvi Gunnarsson.