Fara í efni
Fréttir

Allir skólameistarar VMA með starfsmönnum

Mynd: Hilmar Friðjónsson

Öll sex sem gegnt hafa starfi skólameistara Verkmenntaskólans á Akureyri, þau 40 ár sem skólinn hefur starfað, voru saman í móttöku sem efnt var til fyrir fyrrverandi og núverandi starfsmenn VMA í síðustu viku.

Stórafmælinu var fagnað með samkomu í skólanum fyrir sléttri vik, fimmtudaginn 29. ágúst, eins og Akureyri.net sagði frá – smellið hér til að sjá þá umfjöllun.

Daginn eftir var síðan mótttaka fyrir fyrrverandi og núverandi starfsmenn og þar tók Hilmar Friðjónsson, starfsmaður VMA, meðfylgjandi mynd þar sem skólameistararnir eru fremstir. Myndin birtist á vef skólans. Þar segir:

Bernharð Haraldsson var fyrsti skólameistari skólans, hann var skipaður skólameistari 1. júní 1983 og gegndi þeirri stöðu til loka skólaársins 1999 er hann lét af störfum. Skólaárið 1988-1989 var Bernharð í orlofi í Kaupmannahöfn og var Baldvin J. Bjarnason, aðstoðarskólameistari, starfandi skólameistari það skólaár. Á síðasta starfsári Bernharðs sem skólameistari, 1998-1999, leysti Haukur Jónsson aðstoðarskólameistari Bernharð af í veikindaleyfi hans.

Hjalti Jón Sveinsson var skipaður skólameistari VMA árið 1999 og gegndi því starfi til ársloka 2015. Frá 1. janúar 2016 var hann skipaður skólameistari Kvennaskólans í Reykjavík. Skólaárið 2011-2012 var Hjalti Jón í námsleyfi og var Sigríður Huld Jónsdóttir, sem hafði verið aðstoðarskólameistari frá 2006, skólameistari VMA þann vetur. Sigríður Huld var síðan skipuð skólameistari VMA 1. janúar 2016 og hefur gegnt því starfi síðan að frátöldu skólaárinu 2019-2020 þegar hún var í námsleyfi og Benedikt Barðason aðstoðarskólameistari gegndi starfi skólameistara.