Fara í efni
Fréttir

Allir háskólarnir með kynningu á Akureyri

Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson.

Árlegur Háskóladagur, þar sem allir háskólar landsins kynna námsframboð,  verður að þessu sinni haldinn á Akureyri laugardaginn 19. mars – í húsnæði Háskólans á Akureyri að sjálfsögðu.

Starfsfólk og nemendur allra háskóla landsins verða til í spjall við gesti um hvaðeina sem viðkemur námsvali og háskólalífinu, að því er segir í tilkynningu. „Mikið verður um dýrðir og verða t.a.m. vísinda- og listasmiðjur í boði fyrir gesti og gangandi. Sprengju-Kata útbýr dularfullar og litríkar efnablöndur og boðið verður upp á forritun Lego-vélmennis á þrautaborði. Þá verður hægt að þreyta þrekpróf, tæta sundur tölvur og setja saman aftur og prófa sig við allskyns námsleiðir.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, flytur ávarp við upphaf Háskóladagsins, sem stendur frá klukkan 12.00 til 15.00.

„Við erum rosalega ánægð með að geta haldið daginn á Akureyri. Fyrir tveimur árum þurftum við að aflýsa deginum með skömmum fyrirvara og í ár skipulögðum við daginn stafrænan þar sem enn var mikil óvissa í stefnu faraldursins. Það er því mikið gleðiefni að geta haldið daginn í Háskólanum á Akureyri með þátttöku allra íslenskra háskóla. Þetta er einstakt tækifæri fyrir áhugasama á svæðinu að kynna sér háskólanám,“ segir Sigrún Einarsdóttir, verkefnastjóri Háskóladagsins.

„Það er von skipuleggjenda Háskóladagsins að áhugasamir nýti sér tækifærið og komi og skoði vandlega það flotta úrval námsleiða sem íslenskir háskólar hafa uppá að bjóða,“ segir í tilkynningu um viðburðinn.

Vefsíða Háskóladagsins

Facebook síða Háskóladagsins