Fara í efni
Fréttir

Alhvít jörð í fyrsta sinn á þessu hausti

Börn á leið í skólann voru betur klædd í morgun en almennt hefur verið hingað til í haust. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Alhvít jörð blasti við Akureyringum þegar þeir fóru á fætur í morgun. Snjórinn er ekki mikill í þessari fyrstu sendingu haustsins af himnum ofan en nóg til þess að nokkuð hált er víða í bænum og eins gott að fara varlega í umferðinni því enn eru án efa sumardekk undir flestum bifreiðum og hjólum.

Áfram er spáð svolítilli úrkomu en hægviðri er í bænum og verður áfram. Spáð er tveggja til fjögurra stiga hita fram eftir degi og gert ráð fyrir rigningu undir kvöld. Hvassara og kaldara verður á fjallvegum, til dæmis á Öxnadalsheiði, og þar má gera ráð fyrir snjókomu.