Fara í efni
Fréttir

„Algjör steypa“ við Austurbrú í vikunni

Handagangur var í öskjunni á byggingareitnum við Austurbrú á fimmtudaginn þegar steypt var frá morgni til kvölds. „Þetta er lang stærsti steypudagurinn í öllu verkefninu,“ sagði Jón Ebbi Halldórsson, byggingastjóri, við Akureyri.net.

Óhætt er að segja að dagurinn hafi verið „algjör steypa“ enda segir Jón Ebbi að magnið – 400 rúmmetrar – gæti dugað til þess að fylla gömlu laugina í Sundlaug Akureyrar!

„Við kaupum steypuna af Möl og sandi en þeir fengu líka steypubíla frá Dalvík og steypubíl og dælubíl frá Húsavík sér til aðstoðar til þess að hægt væri að ljúka verkinu á kristilegum tíma.“

Stór hluti gólfsins í bílakjallaranum var steyptur á fimmtudaginn og hluti af veggjum í kjallaranum. Alla jafna eru um 20 starfsmenn á svæðinu á vegum JE Skjanna, sem sér um uppbygginguna, en á fimmtudag voru þeir hátt í 40 með undirverktökum og bílstjórum, segir Jón. Auk þeirra sem nefndir hafa verið komu múrarar frá Sauðárkróki.

„Við erum sérstaklega ánægðir með alla verktakana og það er einstaklega gaman að sjá hve vel þeir vinna saman. Almennt erum við rosalega ánægðir með allt hér, og stoltir af því að taka þátt í þróa reitinn – þetta er besti staður í bænum að okkar mati. Samstarf við bæði verktaka og skipulagsyfirvöld er sérstaklega gott, og svo er ánægjulegt hve okkur utanbæjarmönnunum er vel tekið. Það er ekki alltaf gefið.“

Húsin verða tvö, íbúðir alls 65 af ýmsum stærðum og gerðum,15-20 hótelíbúðir að auki og einn veitingastaður. Fyrirtækið sem stendur að uppbyggingunni keypti einnig gömlu umferðarmiðstöðina en ekki hefur endanlega verið útfært hvernig húsið verður nýtt. Það er í þróun.

Jón segir fyrstu íbúðir gætu orðið tilbúnar eftir um það bil tvö ár framkvæmdum lokið eftir á að giska þrjú ár.

Axel Darri Þórhallsson myndaði við Austurbrú bæði á miðvikudag og fimmtudag. Tvær efstu myndirnar hér að neðan voru teknar á miðvikudag, þegar undirbúningur stóð sem hæst, og fjórar næstu steypudaginn stóra.

Handagangjur í öskjunni á fimmtudaginn. Ljósmynd. Jón Ebbi Halldórsson

Jón Ebbi Halldórsson byggingastjóri við Austurbrú. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.