Aldarafmæli rafveitu á Akureyri fagnað
Aldarafmælis framleiðslu og dreifingu rafmagns á Akureyri hefur verið minnst með ýmsum hætti í þessum mánuði og fjöldi fólks mætti til dæmis í opið hús Norðurorku í Hofi á laugardaginn var.
Rafveita Akureyrar var stofnuð 30. september 1922, þegar straumi var hleypt á rafdreifikerfið á Akureyri. Þessi merki áfangi í sögu bæjarins átti sér þó langan aðdraganda því fyrstu hugmyndir um raflýsingu á Akureyri kviknuðu í kringum aldamótin 1900. Mikill kostnaður óx Akureyringum í augum en þrátt fyrir það voru ýmsir möguleikar skoðaðir og undirbúningsvinnan leiddi síðan til þeirrar ákvörðunar árið 1921 að ráðast í stíflugerð í Glerá það ár og stöðvarhús Glerárvirkjunar var byggt árið eftir.
Gamlar ljósmyndir úr 100 ára sögu Rafveitu Akureyrar voru til sýnis í Hofi auk ýmissa gamalla muna úr rafveitunni. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson
Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku, lengst til hægri, var á meðal starfsmann fyrirtækisins á opnu húsi í Hofi.
- Virkjunarframkvæmdir gengu vel og þann 17. september 1922 var fulltrúum í bæjarstjórn Akureyrar boðið að vera viðstaddir þegar rafmagnsvélarnar voru gangsettar í fyrsta skipti. Allt gekk þetta að óskum og tæpum hálfum mánuði síðar, 30. september, fengu fyrstu húsin afl frá Glerárstöð. Stór og mikilvægur kafli í sögu Akureyrar var þar með í höfn.
- Heildarkostnaður við virkjunina var 350 þúsund krónur, sem var nokkru lægri fjárhæð en áætlað hafði verið.
- Árið 2000 var Norðurorka sett á stofn með sameiningu Rafveitu Akureyrar og Hita- og vatnsveitu Akureyrar og frá stofnun Norðurorku hefur fyrirtækið annast dreifingu raforku á Akureyri.
- Sem fyrr segir hefur tímamótanna verið minnst með ýmsum hætti í afmælismánuðinum. Fyrrverandi starfsfólki Rafveitu Akureyrar var til dæmis boðið til kaffisamsætis snemma í mánuðinum í húsnæði Norðurorku á Rangárvöllum, þar sem tækifæri gafst tækifæri til þess að hittast og rifja upp góðar minningar frá fyrri árum.
- Í Hofi á laugardaginn var voru fluttir fyrirlestrar um ýmis atriði tengd raforkumálum, svo sem um rafbílavæðingu, hleðslustöðvar, álagsstýringu og snjallmæla auk þess sem saga rafveitu á Akureyri var rifjuð upp og sagt frá tengingu byggðalínu við Akureyri fyrir um það bil hálfri öld.
Margir kannast við þessa mæla frá gamalli tíð.