Fara í efni
Fréttir

„Ákvörðun sem við tökum á hverjum degi“

Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis og gæðastjóri Rafeyrar, til vinstri, og Kristinn Hreinsson framkvæmdastjóri, sælir og glaðir í kaffitíma einn morguninn nýverið þegar VÍS færði starfsmönnum forláta tertu í tilefni verðlaunanna. Verðlaunagripurinn aftan við tertuna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Rafeyri hlaut á dögunum forvarnaverðlaun VÍS. Í tengslum við afhendingu verðlaunanna sagði Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS að árangur í öryggismálum væri ekki heppni, heldur ákvörðun.

„Þetta er ákvörðun sem við tökum á hverjum degi,“ segir Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis og gæðastjóri Rafeyrar við Akureyri.net þegar hann er inntur eftir því hvar og hvenær Rafeyri hafi tekið afgerandi ákvörðun um að gera vel í öryggismálum. Hann segist líta fyrst og fremst á verðlaunin sem viðurkenningu á nálgun Rafeyrar í öryggismálum.

„Við byggjum þetta á því að gera hvern og einn starfsmann að hinum eiginlega öryggisstjóra. Vissulega er ég með þennan titil, en stóra málið er að hver og einn sé ábyrgur fyrir sínu öryggi. Annað lykilatriði er að við erum að byggja hér upp samfélag, þannig að þetta er ekki bara vinnustaður heldur er þetta vettvangur þar sem menn vinna saman og njóta þess að vera saman. Byggja þetta upp þannig að menn hafi umhyggju hver fyrir öðrum og passi upp á öryggi hvers annars. Það er áherslan, vertu sjálfur ábyrgur og gættu að þeim sem þú ert að vinna með. Við erum með starfsmannafundi hérna mánaðarlega og þar erum við að brýna þetta fyrir mönnum. Þar tölum við um að við viljum að allir komi heilir heim úr vinnunni.“

En stóra öryggismálið er að sögn Hannesar að þurfa ekki að hugsa um öryggismál sérstaklega heldur séu þau sjálfsagður hlutur. „Þannig að þegar þú ert að vinna verkið ertu búinn að koma þér upp verklagi sem er öruggt. Það að skila góðu verki er að skila öruggu verki.“ Þá þurfi ekki einhverjar tilfæringar til að tryggja öryggið áður en menn fara að vinna – það sé bara sjálfsagt mál.

Menn eru Rafeyri

Hannes nefnir einnig styttingu vinnuvikunnar í tengslum við öryggismálin. „Ég hef sagt að salatið hjá Heimi sem sér um kaffistofuna sé grundvöllurinn að farsæld fyrirtækisins. Þannig myndast þetta samfélag,“ segir Hannes.

Hann bendir á að þegar komi að því að stytta eigi vinnuvikuna sé boðið upp á að sleppa megi kaffitímum og það sé meira að segja þannig í kjarasamningum að verðlaunað sé fyrir að sleppa þeim, í staðinn „vinnir þú bara eins og skepna út í eitt og hunskist svo heim til að fara að njóta lífsins,“ sem getur varla talist skynsamlegt út frá öryggismálum. „Nei, okkur finnst það alveg galið og við leggjum áherslu á að menn njóti þess að vera vinnufélagar og að þetta sé samfélag, menn njóti þess að vera saman,“ segir Hannes. Hann segir starfsmenn sammála um að taka kaffitímana þó vinnuvikan verði örlítið lengri. Salatið frá Heimi á þar væntanlega hlut að máli.

„Þetta er ekki bara eitthvað valdboð frá stjórnendum. Við leggjum líka áherslu á að menn vinni ekki bara hjá Rafeyri, menn eru Rafeyri. Mér finnst það ganga alveg ágætlega.“

Forvarnaverðlaun VÍS afhent á dögunum. Frá vinstri: Guðný Helga Herbertsdóttir, forstjóri VÍS, Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis- og gæðastjóri Rafeyrar, Kristinn Hreinsson, framkvæmdastjóri Rafeyrar og Guðmundur Ólafsson, forstöðumaður fyrirtækjaviðskipta VÍS.

Sækir viðhorf til skátastarfsins

Hannes nefnir annað atriði í öryggismálum sem áherslupunkt hjá sér og Rafeyri, en nefnir í leiðinni að það sé ef til vill eitthvað sem ekki ætti að segja upphátt. Honum sé þó full alvara með þessari nálgun.

„Ég segi við starfsmenn: Þið megið taka áhættu í vinnunni, en skynsamlega. Ég kem úr skátastarfi þar sem gildir að taka unga einstaklinga og fara með þá út að mörkum þeirra, láta þá læra á mörkin og útvíkka þau. Þannig eflast þeir í lífinu og sem einstaklingar. Það sama á við í raun um öryggismálin. Ef við þrengjum alltaf öryggismörkin vegna þess að það má aldrei fara út að hættumörkum eða einhverjum mörkum, þá verðum við óöruggari smátt og smátt.“

Hannes segist stundum nota samlíkingu við það að fara út á svell. Ef hægt er að velja aðra leið en þá hálu þá eigi menn að gera það. „En stundum erum við staddir á þeirri leið og við þurfum að læra að fóta okkur,“ segir hann og tekur mörgæsaganginn sem dæmi, lækka þurfi þyngdarpunktinn, setja hendurnar út eins og mörgæsir gera með vængina „og alls ekki hafa hendurnar í vösum því mörgæsir hafi enga vasa.“

Þjálfun í að mæta aðstæðum

Þessi nálgun tengist meðal annars því að það starfsaðstæður sem starfsmenn Rafeyrar vinna í geti verið ófyrirséðar. „Við erum að vinna við ýktar aðstæður. Menn eru að fara upp í rafmagnsstaura í alls konar veðrum, alls konar aðstæðum. Menn eru að fara um borð í skip í alls konar kima og króka,“ segir Hannes.

Rafeyri hefur unnið að stórum verkefnum erlendis og þar segir Hannes einnig koma upp ófyrirséðar aðstæður í öryggismálum. Til að mynda þegar unnið var að stóru verkefni á hinum rússnesku Kúrileyjum norðan við Japan. Þar hafi til dæmis þurft leyfi frá rússneska hernum til að fá að fara á vettvang. Stéttaskipting hafi þar verið mikil og starfsmenn þurfi að læra á slíkt á vettvangi. „Þar voru alls konar áskoranir sem þurfti að glíma við, þannig að það þarf í raun að þjálfa menn upp í það til að vera menn til að mæta hinum og þessum aðstæðum,“ segir Hannes.

En hefur Rafeyri þá líka verið í verkefnum erlendis þar sem huga þurfti sérstaklega að öryggi starfsmanna vegna umhverfisins, samfélagsins þar sem verið var að vinna?

„Nei, en þetta var hins vegar eitthvað sem við þurftum að hugsa um þegar kom til greina að fara að vinna í Óman,“ segir Hannes. Af því verkefni varð þó ekki vegna skorts á undirbúningi hjá heimamönnum á þeim tíma. „Þar upplifði maður einmitt þörfina á þessu sem þú ert að nefna, en hún hefur ekki skollið á okkur ennþá.“

Alcoa ýtti við Íslendingum

Hannes segir fyrirtækið í raun ekki vinna eins og ýtrustu kröfur segja til um í öryggismálum. Til að mynda megi bæta skráningu atvika, þegar slys verða næstum því, halda betur utan um tölfræði og annað í þeim dúr. „Við erum ekkert að andmæla því að það sé til bóta að vinna slíkt, en við höfum ekkert verið fremst í flokki í því,“ segir Hannes.

Hann veltir jafnframt fyrir sér raunveruleika og draumsýn þegar kemur að öryggismálum og hvar menn séu þarna á milli, spyr hvort alltaf eigi að byggja kröfurnar á draumsýninni. „Við þurfum að byggja á raunveruleikanum og bæta okkur.“ Þannig þokist áfram um hænufet í dag og vonandi aftur á morgun. Hannes nefnir einnig breytta menningu frá því sem var þegar menn vildu ekki sjá neitt annað „en að ganga beint í verkið“ eins og hann orðar það. Þetta viðhorf hafi meðal annars breyst með vinnu fyrir Alcoa og Bechtel, þar sem beinlínis séu gerðar strangari kröfur í útboðum. „Ég ætla að hrósa Alcoa og Bechtel fyrir það sem fyrirtækin hafa gert og haft áhrif á öryggisstandard íslenskrar vinnumenningar. Það hefur smitast út um allt land,“ segir Hannes.

„Vissulega erum við að vinna mjög stíft eftir því að fylla út allar skýrslur og slíkt þegar við erum að vinna fyrir Alcoa, Landsvirkjun, Landsnet og slíka aðila þar sem í útboðsgögnum er tilskilið að gera áhættumat, hvernig á að standa skil á sorpi og fleira og fleira, sem er bara fyrirskrifað og við fylgjum því og teljum okkur vera sómasamlega í því. En annars, dags daglega erum við ekkert að gera mikið af slíku. Þegar menn fara og leggja nýlagnir í blokkir þá erum við ekki búnir að kryfja það hvað getur mögulega komið upp á þennan daginn hjá viðkomandi einstaklingi.“

Vinnuslys fátíð

Það má væntanlega gera ráð fyrir að tryggingarfélög verðlauni fyrirtæki þar sem sjaldan verða slys og unnið vel að því að koma í veg fyrir þau því eðli málsins samkvæmt hlýtur það að vera hagur tryggingafélagsins að þurfa sem sjaldnast að greiða slysabætur.

„Já, það er bara staðreynd. Ég man varla eftir slysum, einhverjir bílar hafa orðið fyrir einhverju og vissulega hafa menn slasast hérna, það er ekki svo að menn séu hérna með einhvern verndarhjúp umfram alla aðra. Við höfum verið mjög farsælir hérna með það, en þetta er ekki heppni, þetta er ákvörðun,“ segir Hannes Garðarsson, skrifstofu-, öryggis og gæðastjóri Rafeyrar.