Fara í efni
Fréttir

Ákveða ekki einhliða að víkja frá samningi

Valur Helgi Kristinsson og Guðrún Dóra Clarke, heimilislæknar sem starfa hjá Heilsuvernd og hefur verið gert að starfa eingöngu á starfsstöð Heilsuverndar í Urðarhvarfi í Kópavogi.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir ekki mögulegt að annar aðili samnings sem hefur tekið að sér að veita tiltekna þjónustu á grundvelli samningsins ákveði einhliða að víkja frá ákvæðum samningsins með grundvallarbreytingu á framkvæmd hans. Greint er frá þessu á mbl.is og vitnað í skriflegt svar ráðherra við fyrirspurn mbl.is. Ráðherra vísar þarna í tilfelli tveggja heimilislækna sem hætt hafa störfum á Heilsugæslustöðinni á Akureyri á liðnum mánuðum og starfa nú hjá Heilsuvernd, með starfsstöð í Urðarhvarfi í Kópavogi. Annar læknanna, Valur Helgi Kristinsson, hefur sinnt hluta af starfi sínu frá Læknastofum Akureyrar frá áramótum og áformað var að Guðrún Dóra Clarke myndi gera slíkt hið sama frá 1. mars. 

Starfsemi þeirra á Akureyri var stöðvuð tímabundið á dögunum að kröfu Sjúkratrygginga Íslands, eins og upplýst var á Facebook-síðu Heilsuverndar og Akureyri.net greindi frá á mánudag, og þeim gert að starfa eingöngu á starfsstöð Heilsuverndar í Urðarhvarfi í Kópavogi. 

„Sjúkra­tryggðum er enn heim­ilt að skrá sig á heilsu­gæslu­stöð og leita til heilsu­gæslu­stöðvar eft­ir þjón­ustu hvar sem þeim hent­ar best og gild­ir það jafnt um op­in­ber­ar og einka­rekn­ar heilsu­gæslu­stöðvar,“ segir ennfremur í svari ráðherra til mbl.is. Þar kemur einnig fram að samningurinn milli SÍ og Heilsugæslu Reykjavíkur hafi verið gerður um rekstur heilsugæslutsötðvar að Urðarhvarfi 14 í Kópavogi og áréttað í samningsákvæðum að starfsemin skuli fara fram þar. 

Ráðherra segir ennfremur í svarinu að engin ákvörðun hafi verið tekin um opnun einkarekinnar heilsugæslustöðvar á Akureyri. Ef slík ákvörðun yrði tekin færi fram formlegt valferli rekstraraðila í gegnum SÍ þar sem öllum þar til bærum aðilum yrði boðið að taka þátt.