Fara í efni
Fréttir

Akureyri og nágrenni verði „svæðisborg“

Starfshópur um svæðisbundið hlutverk Akureyrar leggur til að Akureyri og nágrenni verði skilgreint sem svæðisborg, sem fái sérstakar skyldur og réttindi og gagnvart ríkinu og nágrannabyggðum. Þetta kemur fram í skýrslu sem afhent var Sigurði Ingi Jóhannssyni, samgöngu- sveitarstjórnarráðherra nú undir kvöld. Ráðherra skipaði starfshópinn í október á síðasta ári.

Starfshópurinn fékk það verkefni að skilgreina svæðisbundið hlutverk Akureyrar sem þéttbýliskjarna á landsbyggðinni. „Starf hópsins fólst í að samþætta áhersluverkefni samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra um borgarhlutverk Akureyrar annars vegar og áherslur í byggðaáætlun um sjálfbæra þróun, sameiginlega stefnumörkun fyrir landshluta og sérstöðu Akureyrar sem stærsta þéttbýlis utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Birgir Guðmundsson í formála skýrslunnar, en hann er formaður hópsins og fulltrúi ráðherra.

Nýr tónn í umræðu um byggðamál

Birgir segir ennfremur: „Eins og fram kemur í skýrslunni varð það niðurstaða starfshópsins að reyna ekki vinna gegn þeim hnattrænu búferlastraumum sem felast í sókn fólks í búsetu í borgarsamfélögum. Þvert á móti vill hann nýta sér þá strauma til hagsbóta fyrir sjálfbæra byggð í landinu öllu með því að skilgreina Akureyri og nærliggjandi byggðir sem annað borgarsvæði til viðbótar við þá erkiborg sem höfuðborgarsvæðið er. Með þessu styrkjast búsetukostir og lífsgæði á landsvæðinu öllu um leið og val um ólík borgarsvæði efla Ísland sem búsetuvalkost gagnvart útlöndum. Skýrslan slær að þessu leyti nýjan tón í umræðu um byggðamál á Íslandi og skorar á hólm þá stefnu að á Íslandi sé aðeins ein erkiborg eða eitt erkiborgarsvæði og síðan landsbyggð með smærri þéttbýliskjörnum, sem hver um sig nær ekki að búa til borgarsamfélag af því tagi sem eftirspurn er eftir. Með því að byggja upp annað borgarsvæði dreifist byggð í landinu og búseta á áhrifasvæði borgarinnar eflist, rétt eins og fólk þekkir frá höfuðborgarsvæðinu.“

Í skýrslunni er byggt á fræðilegum heimildum, sögulegum gögnum og könnunum og viðtölum sem voru sérstaklega tekin fyrir þetta verkefni. „Hitann og þungan af þeirri vinnu hefur Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri borið auk þess sem fulltingis sérfræðinga frá Byggðastofnun og SSNE hefur notið við. Efnistök, túlkanir og tillögur eru þó á ábyrgð starfshópsins sjálfs,“ segir Birgir.

Starfshópinn skipuðu:

  • Birgir Guðmundsson, dósent, formaður hópsins og fulltrúi ráðherra.
  • Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar, fulltrúi Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra (SSNE).
  • Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings, fulltrúi SSNE.
  • Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, fulltrúi Akureyrarbæjar.
  • Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi, fulltrúi Akureyrarbæjar.

Með hópnum störfuðu Hanna Dóra Hólm Másdóttir, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, Reinhard Reynisson, sérfræðingur á þróunarsviði Byggðastofnunar, Baldvin Valdemarsson, sviðsstjóri atvinnu- og byggðaþróunar hjá SSNE og Arnar Þór Jóhannesson og Hjalti Jóhannesson, sérfræðingar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri.