Fara í efni
Fréttir

Akureyri mynduð fyrir Apple Maps

Bíll frá Apple Maps inni á bílastæði við Skálateig 3, 5 og 7 í morgun. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Akureyri verður mynduð í bak og fyrir í dag og ef til vill næstu daga. Þessa dagana eru bílar á vegum Apple á landinu með háþróaðar myndavélar á þakinu, aka um allar götur og taka myndir fyrir svokallaða götusýn eiginleikann í Apple Maps, Look Around.

Fram hefur komið í fjölmiðlum undanfarna daga að sex bílar hafi komið með Norrænu til landsins og áætlað að þeir verði á ferðinni um landið til 7. september. Þá munu einnig vera á ferðinni bílar frá Google Maps við uppfærslu á götusýn fyrirtækisins, samkvæmt frétt DV. Google Maps og Já.is mynduðu fyrst hér á landi árið 2013, en þetta er í fyrsta skipti sem myndað er fyrir Apple.


Líklegt er að bíllinn frá Apple Maps hafi vakið athygli þessara barna sem hjóluðu fram og aftur í Skálateiginum í morgun þegar bíllinn var þar á ferð. Mynd: Haraldur Ingólfsson.