Fara í efni
Fréttir

Akureyri leggur fram níu milljónir til Flugklasans

Vél easyJet á Akureyrarflugvelli í vikunni. Ljósmynd: ISAVIA/Þórhallur Jónsson
Akureyrarbær mun styðja við starfsemi Flugklasans Air66N með níu milljóna króna framlagi á næsta ári. Þetta var samþykkt á fundi bæjarráðs í morgun. Fyrr í mánuðinum hafði ráðið ákveðið að stuðningi yrði ekki haldið áfram í sömu mynd og verið hefur síðustu ár en snérist hugur.
 
Á fundi 5. október vísaði bæjarráð til fyrri bókunar um málið, þess efnis að framlag bæjarins til Flugklasans í núverandi mynd yrði ekki framlengt eftir árið 2023. Farsælla væri að stuðningurinn færi í gegnum sameiginlegan stuðning sveitarfélaga og fyrirtækja á svæðinu við Markaðsstofu Norðurlands.

Í fundargerð bæjarráðs í morgun segir að ráðið hafi ákveðið að taka málið fyrir að nýju eftir að hafa fengið frekari upplýsingar.

„Bæjarráð samþykkir að styðja við starfsemi Flugklasans Air66N árið 2024 um 9 milljónir króna. Árið verði nýtt til þess að skoða með hvaða hætti stuðningur bæjarins geti orðið við verkefnið í framhaldinu enda ákaflega mikilvægt að tryggja reglulegt millilandaflug um Akureyrarflugvöll til framtíðar. Bæjarráð hvetur Markaðsstofu Norðurlands til þess að leita eftir styrkjum hjá fyrirtækjum og öðrum hagsmunaaðilum á Norðurlandi inn í flugklasann.“
_ _ _

HVAÐ ER FLUGKLASINN AIR 66N?

  • „Flugklasinn Air 66N er samstarfsverkefni fyrirtækja í ferðaþjónustu á Norðurlandi, sveitarfélaga, stofnana og annarra hagsmunaaðila í samfélaginu,“ segir á vef Markaðsstofu Norðurlands.

Þar segir ennfremur:

  • „Klasinn er leiðandi í að markaðssetja og kynna Akureyrarflugvöll sem nýjan áfangastað fyrir millilandaflug allt árið um kring með það að markmiði að fjölga ferðamönnum á Norðurlandi og lengja dvöl þeirra á svæðinu. Verkefnið fór af stað 2010 og í október það ár var ráðinn verkefnastjóri til að annast undirbúning að verkefninu í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila. Í október 2011 var klasinn svo formlega stofnaður. Verkefnið hefur frá upphafi verið hýst hjá Markaðsstofu Norðurlands (MN).“