Áfram höfuðstaður norðurslóða á Íslandi
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, segir Akureyri áfram verða höfuðstað norðurslóða á Íslandi. Á því leiki enginn vafi. Þetta kom fram í gær í Næstu skrefum, spjallþætti Njáls Trausta Friðbertssonar, alþingismanns, á Facebook.
Einhverjir hrukku í kút í síðustu viku þegar ráðherra kynnti Grænlandsskýrslu, sem samin var undir forystu Össurs Skarphéðinssonar, fyrrverandi ráðherra, þar sem lagt er til að norðurslóðasetri verði komið á fót í Reykjavík; það verði framtíðarheimili Hringborðs norðurslóða – Arctic Circle, þar verði aðstaða fyrir erlenda vísindamenn og gert ráð fyrir að setrið hýsi safn um norðurslóðir, en jafnframt er gert ráð fyrir nánu samstarfi milli norðurslóðasetursins, stjórnvalda, Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans í Reykjavík og Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri.
Íslendingar hafa gegnt formennsku í Norðurskautsráðinu síðan í fyrra, og gera fram í maí. Guðlaugur Þór sagði ýmsa viðburða hafa verið á dagskrá af því tilefni, þar sem Akureyri átti að vera áberandi, en því miður hafi þurft að aflýsa mörgu vegna kórónuveirufaraldursins.
Framtak og framsýni Ólafs Ragnars
Arctic Circle er stærsti alþjóðlegi samskiptavettvangurinn í málefnum Norðurslóða. „Arctic Circle er ekki verk ríksstjórnar Íslands, heldur fyrrum forseta sem hefur gengið þannig fram að þetta er lang, lang, lang mikilvægasti vettvangur til að ræða norðurslóðamál í heiminum – um það deilir enginn. Vinir okkar, Norðmenn, ætluðu sér stóra hluti með Arctic Frontiers, og eru með það í Tromsö á hverju ári, en með fullri virðingu fyrir þeim ágæta vettvangi, er hann ekkert nálægt því sem Arctic Circle er,“ sagði Guðlaugur Þór.
Ráðherrann benti á að Arctic Circle snerist ekki bara um ráðstefnuna stóru í Reykjavík heldur um fjölbreytta viðburði víðs vegar um heiminn. Hann segir markmiðið að tryggja að starfsemi Arctic Circle verði áfram á Íslandi, það sé ekki sjálfgefið. „Þetta hefur verið framtak og framsýni Ólafs Ragnars Grímssonar og núna er verkefnið að festa það á Íslandi svo allir njóti góðs af.“
Hitt verkefnið sé hvernig Akureyri getið vaxið og dafnað sem höfuðstaður norðurslóða hérlendis. „Auðvitað tengist þetta allt saman og til þess er starfshópurinn sem stofnaður var og margir sem munu að þessu koma.“ Grænlandsskýrslan sé hlaðborð hugmynda og af nógu taka, segir Guðlaugur Þór.
Þverpólitísk sátt um að styrkja starfið á Akureyri
Njáll Trausti nefndi að sérstaða Háskólans á Akureyri tengdist mjög norðurslóðamálum og í bænum væru helstu norðurslóðastofnanir á Íslandi. Hann spurði ráðherra hvort ekki væri öruggt að ekki stæði til að veikja þá starfsemi sem fyrir væri í bænum. „Alls ekki held, ég það sé það þverpólitísk stefna að efla og styrkja starfsemina á Akureyri, ég hef ekki heyrt neinar mótbárur við því,“ sagði ráðherra. Hann sagði samhljóm um það í ríkisstjórn og raunar þverpólitíska sátt um málið í landinu; allir séu meðvitaðir um stöðu Akureyrar. „Við þurfum að vinna þetta með þeim hætti að ekki sé togast á um einstaka hluti, þótt alltaf verði einhver núningur og mismunandi hagsmunir, heldur hvernig við náum að nýta þetta þannig að Íslendingar nái sem bestum árangri. Einn útgangspunkturinn er – það er alveg hreint og klárt – að Akureyri er höfuðstaður norðurslóða á Íslandi.“
Lyftistöng fyrir Akureyri
Össur Skarphéðinsson, sem einnig var gestur Njáls Trausta í þættinum, minnti á að hann hefði sem umhverfisráðherra komið því til leiðar að tveir af sex vinnuhópum Norðurskautsráðsins væru staðsettir á Akureyri; PAME, vinnuhópur um verndun hafsvæðis á norðurslóðum og CAFF, vinnuhópur um lífríkisvernd.
„Ég reyndi að berjast fyrir því að fyrsta skrifstofa Norðurskautsráðsins yrði á Akureyri, lenti á vegg þar, út úr því kom samt prófessorsstaða kostuð af Norðmönnum um skeið við Háskólann á Akureyri. Ég lít á þetta sem tækifæri fyrir Akureyri, ég tel að út úr svona stofnun [norðurslóðasetri í Reykjavík] geti komið mjög sterk tenging við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar sem hún þarf á að halda, og ég tel þess vegna að það komi fyllilega til greina að búa til einhverja formlega tengingu millum þeirrar stofnunar og slíks norðurslóðaseturs sem gæti orðið lyftistöng frekari rannsókna.“
Össur rifjaði upp að ekki sé langt síðan ráðherra gerði samstarfssamning við Háskólann á Akureyri upp á 60 milljónir um samstarf á þessu sviði. „Ég get alveg trúað þér fyrir því að það eru til aðrir háskólar á Íslandi sem hafa ekki verið mjög glaðir yfir því hversu lítill gaumur þeim finnst þeim hafa verið gefinn með þessari skýrslu; ég gæti nefnt þér tvo!" sagði Össur.
Hann áréttaði að ekki væri gert ráð fyrir því að ríkisstjórn Íslands kosti umrædd Norðurslóðasetur í Reykjavík. „Hugsunin hefur verið sú, og það hefur verið kannað lítillega, að peningarnir komi annars staðar frá.“