Fara í efni
Fréttir

Akureyrarbær leiðandi í hækkun á fasteignaverði

Nóg framboð er af stærri eignum á Akureyri en það vantar fleiri venjulegar íbúðir undir 50 milljónum að sögn fasteignasala í bænum. Mynd: Þorgeir Baldursson

Lóðir á Akureyri hafa hækkað mikið í verði frá því að Akureyrarbær breytti úthlutunarreglum sínum fyrir nokkrum árum. Fasteignasalar í bænum segja reglurnar hafa ýtt undir hækkun á fasteignaverði.

Akureyri.net birti í gær viðtal við þrjá fasteignasala á Akureyri þar sem þeir ræddu stöðuna á fasteignamarkaðnum í bænum. Hér heldur spjallið áfram við fasteignasalana Tryggva Gunnarsson hjá Eignaveri, Björn Davíðsson hjá Hvammi og Friðrik Sigþórsson hjá FS fasteignir. 

 

Bærinn á ekki að lifa á lóðasölu

Það er nóg framboð af stærri eignum sem kosta yfir 100 milljónir en það vantar fleiri eignir á markaðinn, svona venjulegar íbúðir undir 50 milljónum, segir Friðrik þegar fasteignasalarnir eru spurðir að því eftir hvers konar eignum er mest ákall um þessar mundir. Aðspurðir að því hvort ekki sé hægt að byggja fleiri ódýrar íbúðir ef það er það sem íbúar á Akureyri vilja, segja þeir málið ekki vera svo einfalt.

Áður var það þannig að lóðir voru auglýstar á ákveðnu verði og síðan var dregið úr hópi umsækjanda. Nú er stefna Akureyrarbæjar þannig að þeir sem borga mest fá lóðirnar. Þetta þýðir að lóðir hafa hækkað mikið í verði og aðeins þeir ríkustu ná að festa sér lóðir. Bærinn er því orðinn leiðandi í hækkun á fasteignaverði í bænum að sögn fasteignasalanna. Bærinn á ekki að lifa á lóðasölu heldur fasteignagjöldum. Það á að vera hægt að draga um íbúðir í nýjum hverfum eins og var í gamla daga. Þá fyrst er líka hægt að gera kröfu um að verktakar séu að byggja hagstæðari íbúðir,” segir Friðrik og hinir taka undir að ekki sé hægt að ætlast til þess, eins og fjármagns kostnaðurinn er í dag, að verktakar séu að byggja bara til að koma út á núlli. Vandamálið er náttúrulega fyrst og fremst vextirnir því ungir verktakar sem voru komnir á ágætis siglingu eru bara hættir í dag og komnir í viðhaldsvinnu. Það getur enginn byggt og skuldað 3-400 milljónir, þú nærð því bara ekkert.”

 

Fasteignasalarnir Tryggvi Gunnarsson á Eignaveri, Friðrik Sigþórsson hjá FS fasteignum og Björn Davíðsson hjá Hvammi.

Stæði í bílakjallara hækka verð

Þá gagnrýna fasteignasalarnir líka auknar kröfur Akureyrarbæjar um stæði í bílakjallara í fjölbýlishúsum. Þessar kröfur séu íþyngjandi fyrir verktaka og kaupendur þar sem stæðin eru oft orðin 5-10% af verðgildi eignarinnar. Nýjar íbúðir komu t.d í sölu í vor við Austurbrún og í Þursaholti og eru þær allar með stæði í bílakjallara og verð eftir því. Kaupendur vilja oft frekar fá eitt herbergi í viðbót heldur en stæði í bílakjallara fyrir 4-5 milljónir aukalega, segir Björn. Þá komum við að því sem við höfum oft áður rætt okkar á milli, af hverju heldur Akureyrarbær ekki samráðsfund með fólki sem er að vinna í þessum bransa og veit hvar þörfin er mest hjá íbúum bæjarins? Fasteignasalar á Akureyri eru með gríðarlega reynslu og þekkingu á markaðinum. Það væri nú kannski bara allt í lagi að tala við okkur og leyfa okkur að koma með hugmyndir, þó þær verði jafnvel ekki notaðar, segir Tryggvi og við látum þau orð slá botninn í þetta spjall.