Akureyrarbær fékk eina milljón frá LYST
Reynir Gretarsson eigandi veitingastaðarins LYST í Lystigarðinum afhenti Akureyrarbæ eina milljón króna í morgun – afrakstur fernra útitónleika sem hann hélt í garðinum í sumar, einmitt í þeim tilgangi að safna fé sem notað yrði til þess að efla þennan einstaka stað, Lystigarðinn, yfir vetrartímann; til dæmis með því að auka lýsingu eða moka stíga oftar en gert hefur verið þegar allt er á kafi í snjó.
Reynir kveðst afar ánægður með hvernig til tókst með tónleikaseríuna á grasflötinni við LYST. „Tónleikarnir voru vel sóttir, og það var frábært að sjá hversu margir komu saman til að njóta tónlistar undir berum himni. Þetta hefur verið einstakt tækifæri til að sameina fólk og styðja við gott málefni,“ sagið hann í morgun.
„Við vonum innilega að það fjármagn sem safnaðist nýtist vel í vetrarstarfsemi garðsins og öðrum mikilvægum verkefnum. Tónlist og samfélag skipta miklu máli, og við erum þakklát fyrir öll þau sem lögðu sitt af mörkum til að gera þessa viðburði að veruleika. Við hlökkum til að halda áfram að efla menningu og samveru hér á LYST og í Lystigarðinum.“