Akureyrarbær auglýsir Sigurhæðir til leigu
![](/static/news/lg/akureyri_6954.jpg)
Stjórn Akureyrarstofu hefur ákveðið að Sigurhæðir, hús séra Matthíasar Jochumssonar, verði auglýst til leigu.
Umsókn eiga að fylgja upplýsingar um hugmyndir að notkun og rekstri hússins; m.a. um hvaða starfsemi fólk hafi í huga, hvernig hún tengist sögu hússins, hvernig hún verði fjármögnuð og hvernig rekstur muni standa undir húsaleigu og föstum rekstrarkostnaði hússins. Ekki er gert ráð fyrir að búið verði í húsinu.
Á síðasta ári átti að semja við Hlyn Hallsson og Kristínu Kjartansdóttur um leigu á húsinu. Þau gerðu ráð fyrir að búið yrði að staðaldri á efri hæð Sigurhæða og óskuðu eftir að breytingar yrðu gerðar á húsinu með það í huga. Þegar í ljós kom að ráðast þyrfti í viðamiklar og dýrar viðgerðir var ákveðið að hætta við útleigu.
Fyrir nokkrum misserum ákvað Akureyrarstofa að Sigurhæðir yrðu seldar en eftir mikla gagnrýni bæjarbúa var fallið frá þeirri hugmynd. Í húsinu hefur árum saman verið minningarsafn um séra Matthías.