Ákall um umbætur í heilbrigðisþjónustu
Þriðji pistill Ólafs Þórs Ævarssonar geðlæknis um heilbrigðiskerfið birtist á Akureyri.net í gærkvöldi. Pistlana kallar hann Góðan ásetning og glötuð tækifæri.
„Ein af lausnum vanda Bráðamóttöku Landspítalans felst í að huga betur að skipulagi og samvinnu heilbrigðisþjónustunnar í heild. Skilgreina mætti mun betur hvaða þjónusta er veitt á Landspítalanum, í Heilsugæslunni og á sjálfstætt starfandi stöðvum, skerpa á verkaskiptingu og samstarfi. Slíkar skilgreiningar og reglur um samstarf starfseininga eru til á öllum Norðurlöndunum nema á Íslandi,“ skrifar Ólafur meðal annars.
Hann segir að ekki hafi tekist að leysa vanda bráðamótttökunnar þar sem vandi heilbrigðisþjónustunnar hefur kristallast og stjórnmála- og ráðamönnum ekki heldur. „Þetta veldur vanmáttarkennd og vonleysi hjá okkur starfsfólknu, öryggisleysi hjá þeim sem þurfa á þjónustunni að halda og þverrandi trausti á ráðamenn og alþingismenn vegna þess að við heyrum stöðugt sömu fréttirnar aftur og aftur og þetta er niðurdrepandi. Líklegt er að þetta breytist alls ekkert fyrr en okkur tekst að byggja upp meiri og betri samvinnu og auka traust á milli þeirra sem starfa á gólfinu, í heilbrigðiskerfinu, stjórna því eða veita til þess fjármagns.
Þetta er alls ekki ómögulegt, en til þess þurfum við að taka höndum saman og gera þjóðarátak. Það er til staðar þekking, verklag og löngun hjá Alþingi, ráðuneytum heilbrigðis- og fjármála, heilbrigðisstarfsfólki og notendahópum til að skipuleggja þetta og framkvæma en okkur skortir pólitískt frumkvæði með sterkum leiðtoga sem er tilbúinn til að fara fyrir þessu verkefni.“
Smellið hér til að lesa pistil Ólafs Þórs.