Fara í efni
Fréttir

Ákæra gefin út vegna manndráps í apríl

Karlmaður á sjötugsaldri hefur verið ákærður fyrir manndráp og stórfellt ofbeldi í nánu sambandi. Ríkisútvarpið greindi frá þessu í fréttum í dag. Málið var þingfest í Héraðsdómi Norðurlands eystra í gær.

Ákæran, sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur undir höndum og vitnar í, er í tveimur liðum. Annars vegar er maðurinn ákærður fyrir manndráp og að hafa misþyrmt henni í aðdraganda andlátsins. Konan hlaut margvíslega áverka og lést af völdum innvortis blæðingar.

Þá er hann einnig ákærður fyrir brot í nánu sambandi vegna ofbeldis sem hann er grunaður um að hafa beitt konuna í byrjun febrúar með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði og hlaut mar á hálsi og hnakka, í andliti og á handlegg.

Maðurinn er einnig krafinn um miskabætur til tveggja fjölskyldumeðlima konunnar, sex milljónir króna handa hvorum.

Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra þann 3. September. Þinghaldið verður lokað.