Fara í efni
Fréttir

Ágúst Herbert Guðmundsson látinn

Ágúst H. Guðmundsson, athafnamaður og körfuboltaþjálfari á Akureyri, lést að kvöldi nýársdags í faðmi fjölskyldu sinnar, aðeins 53 ára. Hann var fæddur 26. ágúst 1967 á Patreksfirði. Ágúst var nýorðinn fimmtugur þegar hann greindist með hreyfitaugahrörnun, MND, sumarið 2017, og dró sá illvígi sjúkdómur hann til dauða.

Eiginkona Ágústs er Guðrún Gísladóttir, líkamsræktarfrömuður og stöðvarstjóri World Class á Akureyri. Þau eiga þau þrjú börn, Ásgerði Jönu, Júlíus Orra og Berglindi Evu.

Ágúst flutti ungur að vestan til Hafnarfjarðar og körfuboltaferillinn hófst hjá Haukum. Leiðin lá svo til Akureyrar þegar hann var 16 ára, Ágúst gekk þá strax til liðs við Þór og lék með meistaraflokki félagsins árum saman. Hann þjálfaði einnig meistaraflokk Þórs um tíma og yngri flokka félagsins um árabil. Ágúst vann frábært starf, þótti framúrskarandi kennari og var mjög sigursæll þjálfari. Ágúst var líka formaður unglingaráðs körfuknattleiksdeildar Þórs í mörg ár og sat í stjórn deildarinnar.

Hjónin Guðrún og Ágúst stofnuðu líkamsræktarstöðina Átak á Akureyri 2003 og ráku allt til ársloka 2017, þegar World Class keypti stöðina og síðan hefur Guðrún stýrt starfsemi fyrirtækisins á Akureyri.

Ágúst fór ungur til sjós en starfaði síðar hjá Ásprenti og Kassagerðinni þangað til hann stofnaði ásamt fleirum fyrirtækið Neptune í því skyni að gera út rannsóknarskip og þjónusta olíðuiðnaðinn. Ágúst var framkvæmdastjóri fyrirtækisins á meðan heilsan leyfði. Fyrir nokkrum árum fékk hann hugmynd að smávirkjun innst í Eyjafjarðarsveit og lét ekki deigan síga þrátt fyrir veikindin. Tjarnarvirkjun var formlega tekin í notkun í sumar og eru þau hjónin aðaleigendur fyrirtækisins.

Ágúst í þjálfarahlutverkinu á hliðarlínunni, og með Júlíusi Orra syni sínum eftir að 10. flokkur Þórs sigraði á Scania Cup í Svíþjóð, óopinberu Norðurlandamóti í körfubolta, vorið 2017. Júlíus var valinn besti leikmaður mótsins.

Ágúst og Ásgerður Jana dóttir hans fyrir utan heilsuræktina Átak árið 2007 og þau hjónin, Guðrún Gísladóttir, og Ágúst á körfuboltaleik í íþróttahöllinni á Akureyri síðastliðinn vetur. Ágúst mætti á alla leiki Júlíusar og félaga í Þór þegar hann treysti sér til vegna veikindanna. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.

Ágúst og Tryggvi Snær Hlinason, þegar sá síðarnefndi mætti á fyrstu æfinguna, í janúar 2014 - og vestur í Bandaríkjunum aðeins fjórum árum síðar, þegar hann gaf kost á sér í nýliðavali NBA-deildarinnar. Tryggvi er nú lykilmaður í íslenska landsliðinu og atvinnumaður hjá Zaragoza á Spáni.