Áforma stækkun gagnaversins á árinu
Advania færir stóran hluta hýsingarumhverfis síns til Akureyrar og stefnt að flutningi í nýtt skrifstofuhúsnæði sem er í byggingu í Austursíðu 6. Unnið er að undirbúningi á nýtingu umframvarma sem verður til í gagnaverum atNorth. Flöskuháls er við orkuafhendingu frá spennistöð Landsnets á Rangárvöllum. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í greinargerð forstjóra atNorth í tengslum við úthlutun lóðar til stækkunar á gagnaveri fyrirtækisins að Hlíðarvöllum við Hlíðarfjallsveg.
Leggja til að úthlutun verði samþykkt
Umsókn atNorth um lóð B við Hlíðarvelli 3 er frá 3. nóvember í haust og hafði fengið umfjöllun í skipulagsráði og síðan bæjarstjórn sem vísaði erindinu til bæjarráðs sem fer með atvinnumál fyrir hönd bæjarstjórnar. Bæjarráð tók erindið fyrir um miðjan desember, en frestaði afgreiðslu. Þá lá fyrir greinargerð Eyjólfs Magnúsar Kristinssonar, forstjóra atNorth. Greinargerðin hefur að geyma ýmsa áhugaverða punkta um uppbygginguna, áformin og áhrifin, raforkuþörfina og fleira. Akureyri.net gluggaði í greinargerðina og tók saman nokkra áhugaverða punkta.
Áður en fróðleiksmolar úr greinargerð Eyjólfs Magnúsar verða reiddir fram er þó aðalatriði málsins það að bæjarráð samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að úthluta lóð B að Hlíðarvöllum 3 án auglýsingar þar sem deiliskipulag svæðisins sé unnið með frekari stækkun gagnaversins í huga. En það ríkti þó ekki einhugur um afgreiðsluna, hvorki í skipulagsráði í haust né í bæjarráði í gær.
Vilja stefnumörkun áður en lengra er haldið
Þrír fulltrúar í bæjarráði, Sunna Hlín Jóhannesdóttir B-lista, Hilda Jana Gísladóttir S-lista og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir V-lista, ítrekuðu efnislega þá bókun sem fulltrúar sömu lista í skipulagsráði höfðu áður lagt fram. Þar kom meðal annars fram í nóvember að þau teldu skipulagsráð ekki hafa forsendur að svo stöddu til að taka upplýsta ákvörðun um áframhaldandi uppbyggingu gagnavera á Akureyri og vísuðu meðal annars til þess að ekki lægi fyrir hve orkufrek þessi uppbygging er og hvert svigrúmið yrði þá til annarra stórnotenda sem mögulega hefðu áhuga á uppbyggingu á svæðinu.
Afstaða þeirra er að mikilvægt sé að Akureyrarbær setji sér stefnu varðandi uppbyggingu gagnavera í sveitarfélaginu og í framhaldinu hvort tilefni sé til að endurskoða deiliskipulagið, en í því er gert ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu gagnavera á lóðum C, D og E. „Í þeirri vinnu væri æskilegt að tekið verði upp víðtækara samtal við hlutaðeigendur á starfssvæði SSNE um uppbyggingu gagnavera á svæðinu til framtíðar, þar sem ýmislegt bendir til þess að Norðurland verði ákjósanlegur kostur gagnavera í framtíðinni,“ segir enn fremur í bókun þremenninganna.
Fyrsti áfangi opnaður í júní í fyrra
Forsaga verkefnisins er í stuttu máli að atNorth gerði lóðarleigusamning við Akureyrarbæ í janúar 2022, framkvæmdir voru komnar á fullt um mitt ár og réttu ári síðar, eða í júní 2023 byrjuðu viðskiptavinir fyrirtækisins að setja tölvubúnað sinn í gagnaverinu í gang.
Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, við vígslu fyrsta áfanga gagnavers félagsins að Hlíðarvöllum á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.
Eins og fram kom hér að ofan var greinargerð Eyjólfs Magnúsar Kristinssonar, forstjóra atNorth, á meðal gagna sem lögð hafa verið fyrir bæjarráð við afgreiðslu málsins. Hann fer yfir forsöguna, uppbyggingu fyrsta áfanga og áformin um framhaldið. Hér eru nokkrir punktar sem unnir hafa verið upp úr greinargerðinni.
- Fyrsti hluti verkefnisins gekk eins og í sögu, meðal annars þar sem veðurfar var hagstætt, gott aðgengi var að verktökum og mikill velvilji til að tryggja framgang verkefnisins. Framkvæmdin kallaði á ákveðna áræðni þar sem ekkert var í hendi um að uppbygging og rekstur gagnavers á eþssu svæði væri möguleg, bæði vegna smæðar markaðar og ákveðinnar óvissu með baklandið í framkvæmdinni sem slíkri, óvissa um hvort hægt væri að fá verktaka á svæðinu til að vinna að uppbyggingunni enda um tæknilega frekar flókið verkefni og þörf á talsverðum mannafla. Eyjólfur Magnús fullyrðir eftir þennan fyrsta áfanga að tæknileg geta verktaka og ráðgjafa á Akureyri sé sterk.
- Samkvæmt greinargerðinni áætlar atNorth að fyrsti áfanginn hafi kostað um 2,4 milljarða króna og hafi stór hluti þeirrar fjárfestingar farið beint til þjónustuaðila á svæðinu. Gróft mat sé að verktakagreiðslur vegna framkvæmda hafi numið allt að 40% af fjárfestingunni enda hafi starfað 70 verktakar og 28 rafvirkjar á svæðinu þegar mest var.
- Bent er á að þegar verkefnið var sett af stað hafi atNorth sett það markmið að við byggingu gagnaversins á Akureyri yrðu frá upphafi framkvæmda notaðir verktakar af svæðinu og það hafi tekist vonum framar því sáralítið hafi þurft að leita út fyrir svæðið eftir verktökum.
- „Öll vinna við uppsetningu og síðan rekstur tekur til sín þjónustu og vinnu frá aðilum í heimabyggð sem styðja við flutning, uppsetningu og prófun á þessum búnaði og er fyrirséð að slík þjónusta muni aukast nokkuð í framtíðinni,“ segir í greinargerðinni og enn fremur að umtalsverð þekking hafi skapast á svæðinu í kringum framkvæmdirnar.
- Framkvæmdatími á næsta áfanga er að mestu á árinu 2024. Áætlað er að efnahagslegt fótspor framkvæmdarinnar sé um 12 milljarðar.
- Lagt var upp með að áfangaskipta verkefninu og var farið af stað með byggingu tveggja gagnaversbygginga, samtals að 3.000 fermetra að stærð, en jafnframt var farið í jarðvegsskiptingu undir þriðju byginguna og lagt upp með að framhald gæti orðið á byggingum til austurs.
- Markaðsstarf og sala á Akureyri sem staðsetningu hátæknigagnavers hefur gengið vonum framar að sögn Eyjólfs Magnúsar og segir hann núverandi byggingar verða komnar í fulla notkun á miðju ári.
- Um 30% alls plássins hafa verið seld til innlendra aðila, bæði fyrirtækja í heimabyggð og fyrirtækja að sunnan sem „vilja fá speglun á sínum búnaði til Akureyrar til að tryggja öryggi og uppitíma.“
- Stór aðili í Reykjavík er að afleggja mjög mikla afkastagetu á höfuðborgarsvæðinu og verður kominn með allan búnað norður í kringum áramótin. Greinargerð atNorth er dagsett 12. desember og því má ætla að vísað sé til nýliðinna áramóta.
- Advania færir stóran hluta hýsingarumhverfis síns til Akureyrar og styrkir stoðir félagsins á Norðurlandi til muna. Stefnt er að flutningi á skrifstofum Advania í nýtt húsnæði sem er í byggingu við Austursíðu 6.
- Eyjólfur Magnús segir um að ræða hátæknigagnaver fyrir mjög mikilvægan rekstur og kröfuharða viðskiptavini. Í því ljósi sé vert að taka fram að gagnaver atNorth sé ekki hannað eða ætlað fyrir námugröft. Slík gagnaver kalli ekki á jafn umfangsmikinn rekstur og þjónustu.
- Unnið er að undirbúningi fyrir nýtingu á umframvarma sem verður til í gagnaverum atNorth. Mikilvægur hluti af sjálfbærnistefnu atNorth er að nýta þann umframvarma sem verður til í gagnaverum félagsins. Vonir standa til að koma slíku verkefni í framkvæmd við gagnaverið á Akureyri og hafa viðræður verið í gangi um það hvernig hægt sé að nýta varmann sem best.
- Þegar fyrsti áfangi verður að fullu nýttur mun raforkunotkun gagnaversins vera um 4-5 MW. Notendakjör stórnotenda miðast við að lágmarki 10 MW og frekari uppbygginar þörf að mati fyrirtækisins til að fá þau kjör. Ætla má að með næsta áfanga muni orkunotkun gagnaversinis aukast um 8-9 MW og verði þá orðin 12-14 MW.
- Ekki er hægt að bæta við rofum eða spennum til afhendingar á raforku til nýrra kaupenda raforku frá spennistöð Landsnets á Rangárvöllum og hefur myndast nýr flöskuháls til afhendingar raforku þar að því er fram kemur í greinargerðinni og hefur atNorth formlega óskað eftir því við Landsnet að spennistöð Landsnets á Akureyri verði stækkuð til að auka afhendingargetu og öryggi afthendingar á raforku til gagnavers atNorth á Akureyri.
- Stærð gagnaversins í dag er ekki nægjanleg til að tryggja aðgengi að stórnotendaverði á raforku. Eyjólfur Magnús segir einnig töluvert í að stærðarhagkvæmni náist í rekstrinum sem nauðsynleg sé til að tryggja sjálfbæran rekstur og raunar myndi næsta stækkun ekki heldur uppfylla þau markmið nema að hluta.
- „Við sjáum mikil tækifæri í frekari uppbyggingu, fjárfestingu og stuðningi við nærsamfélagið þannig að byggja megi upp glæsilegan vaxtarsprota í sjálfbærum iðnaði á Akureyri öllum til góðs,“ segir að lokum í greinargerð Eyjólfs Magnúsar Kristinssonar, forstjóra atNorth, til bæjarráðs.