Fara í efni
Fréttir

Afhentu hús fyrir líknar- og lífslokameðferð

Minningar- og styrktarsjóður Heimahlynningar Sjúkrahússins á Akureyri (SAk) afhenti í dag SAk og Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) hús til rekstrar; hús sem sjóðurinn keypti og er ætlað fólki sem óskar eftir að fá líknarþjónustu utan sjúkrahúss, eins og Akureyri.net hefur áður greint frá.

„Þetta er langþráð stund,“ sagði Kristín S. Bjarnadóttir, formaður minningar- og styrktarsjóðsins, við Akureyri.net í dag. „Við höfum í töluverðan tíma verið tilbúin að kaupa íbúð eða hús, en höfum beðið eftir rekstraraðila. Við höfum lengi beðið eftir líknardeild á SAk og bið verður eftir henni þar til reist verður ný álma við sjúkrahúsið – en það er millivegur að hafa hér hús með öllum hjálpartækjum og öðru sem til þarf, og sérhæft teymi Heimahlynningar mun sinna líknar- og lífslokaþjónustu,“ segir Kristín.

„Húsið er ætlað þeim sem af einhverjum ástæðum geta ekki verið heima hjá sér en ekki síður fólki af þessu stóra upptökusvæði SAk sem kemur til Akureyrar í krabbameinslyfjameðferð eða aðra sérhæfða meðferð á sjúkrahúsinu, og getur svo staldrað við hér í frekari einkennameðferð áður en farið er aftur heim. Svo ég vitni í Norðlenska líkanið, þá er að fara af stað á vegum ráðuneytisins meiri og markvissari samvinna, ráðgjöf frá sjúkrahúsinu hér heim í hérað; þannig ætlum við að vinna enn betur í því en áður að fólk geti verið heima allt til loka. Eftir að við höfum hitt fólk og sinnt því hér verður auðveldara að veita þjónustu í gegnum síma og vinna með heilbrigðisstarfsfólki á svæðinu.“ 

Nánar hér í fyrri frétt Akureyri.net.

Lyklarnir afhentir! Kristín S. Bjarnadóttir, formaður minningar- og styrktarsjóðs Heimahlynningar, Bjarni Jónasson fulltrúi SAk, Guðný Friðriksdóttir framkvæmdstjóri hjúkrunar á HSN og Þórhallur Harðarson fjármálastjóri HSN. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson.