Fara í efni
Fréttir

Aðstoðuðu tvo bíla á lokaðri heiðinni

Öxnadalsheiði hefur verið lokuð síðan í gærkvöldi, vegna ófærðar og óveðurs, en það kom ekki í veg fyrir að ökumenn tveggja bifreiða ákváðu að freista þess að aka yfir hana í dag. Þeir lentu í vandræðum og björgunarsveitir voru kallaðar út til aðstoðar.

„Upp úr klukkan tvö í dag var sveitin kölluð út vegna fastra bíla á Öxnadalsheiði. Heiðin hefur verið lokuð frá því í gærkvöldi og hafði það greinilega farið fram hjá viðkomandi,“ segir á vef björgunarsveitarinnar Súlna. „Fóru félagar í Súlum til aðstoðar ásamt félögum í Varma, Varmahlíð. Heiðin er enn lokuð þegar þetta er skrifað og bendum við fólki á síðu Vegagerðarinnar með færð og hvenær heiðin opnar.“

Myndin er úr vefmyndavél Vegagerðarinnar og sýnir bíl frá Súlum á leið til aðstoðar.

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að nýjar upplýsingar verði gefnar varðandi Öxnadalsheiði klukkan 18.00 í dag.

www.vegagerdin.is