Fara í efni
Fréttir

Aðlögun hins aðflutta er hagur allra

„Fyrir mér er tungumálið tæki til tjáningar. Ég hef verið svo heppinn að þegar ég hef gert mistök í notkun orða eða jafnvel skort orð, þá hef ég mætt velvild og oft upplifað að fólk er tilbúið að hjálpa mér að læra tungumálið og spurt út í móðurmálið mitt.“

Svo mælir Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni og Evrópufræðingur, Akureyringur búsettur í Þýskalandi. Undanfarna daga hefur átt sér stað nokkur umræða um íslenskukunnáttu þeirr sem kjósa að setjast að á Íslandi og Pétur Björgvin leggur orð í belg í grein sem birtist á Akureyri.net í morgun.

„Mín ósk væri sú að sérhver vinnuveitandi sæi það sem sjálfsagðan hlut að bjóða upp á íslenskunám á vinnutíma fyrir allt sitt starfsfólk. Til að gæta jafnræðisreglu mætti hugsa sér að þetta væri ákveðinn fjöldi kennslustunda sem stæði öllum til boða,“ segir Pétur Björgvin. „Þau sem þegar tala íslensku eða þurfa ekki að nota allar þessar kennslustundir mættu nota kennslustundirnar í að læra eitthvað annað. Um leið dreymir mig um samfélag á vinnustöðum sem sér það ekki sem einhliða hlutverk hins aðflutta að læra tungumál þeirra sem þegar eru á staðnum, heldur væri samstarfsfólkið opið fyrir því að læra lykilorð úr tungumáli hins aðflutta einstaklings.“

Hann lýkur greininni með þessum orðum: 

„Þar sem gagnkvæmur áhugi á samskiptum ríkir, er auðveldara að læra tungumál og skilja hina framandi menningu. Tökum höndum saman. Verum bjartsýn.“

Smellið hér til að lesa grein Péturs Björgvins