Fara í efni
Fréttir

Aðgangur að HA færist alfarið yfir í símann

Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Aðgangsstýring við dyr Háskólans á Akureyri hefur verið í þróun síðan 2004. Í fyrstu stýrði kerfið eingöngu útihurðum en árið 2016 var farið í uppsetningu á búnaði með kortaaðgangi fyrir allar álmur og kennslurými.

Næsta stig er að færa aðgangsstýrikerfið alfarið yfir í símann, eða á dulkóðuð kort; kjósi menn það frekar. Notandi getur þá sjálfur haldið utan um sitt aðgangsnúmer, skipt um PIN og sett inn mynd. Aðgangurinn verður einnig tengdur bókasafns- og prentkerfi skólans.

Síðast en ekki síst býður kerfið upp á kort af skólanum þar sem helstu áherslustaðir verða tilgreindir. Kortið virkar á sama hátt og google maps; fólk velur staðsetningu og kortið sýnir leiðina sem á að fara. Háskólinn á Akureyri er 9.200 fermetrar og kort sem þetta er því mjög hjálplegt til að komast hratt og örugglega á áfangastað.

Það er Nortek sem sér um uppsetningu og þjónustu á kerfinu. Hafist verður handa við verkið fyrir lok þessa árs og áætlað að því verði lokið í árslok 2022.