Fara í efni
Fréttir

Aðdragandi sjálfsvíga verði rannsakaður

Ingibjörg Isaksen fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis hefur lagt til að orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana verði rannsakað með ámóta hætti og önnur andlát.

Ingibjörg lagði í vikunni fram tillögu til þingsályktunar í þessa veru og segir þingheim allan hafa sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýni fram á mikilvægi hennar.

„Þegar andlát á sér stað, er það rannsakað til að gera grein fyrir dánarmeini. Rannsóknir lögreglu og héraðslækna fara fram til að ákveða hvort andlát hafi borið að með saknæmum hætti eða ekki. Sjálfsvíg eru ekki rannsökuð afturvirkt þar sem undanfari þeirra er skoðaður í þaula í leit að þáttum sem komu einstaklingnum í það hugarástand sem hann var í við andlátið,“ segir Ingibjörg í grein sem Akureyri.net birti í dag.

Hún segir nauðsynlegt að slík rannsókn fari fram með þeim hætti að fara afturvirkt yfir lýðfræðilegar breytur, aðstæður, atburði og möguleg áföll sem einstaklingurinn upplifði í undanfara sjálfsvígs eða dauðsfall vegna óhappaeitrunar, í því skyni að hægt verði að bæta forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir í þeirri von að koma í veg fyrir andlát af þessu tagi.

„Málið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild,“ segir Ingibjörg. 

Smellið hér til að lesa grein Ingibjargar