Fara í efni
Fréttir

Aðal sjúkraflugvél Norlandair komin

Vélin kom inn í skýli Norlandair á Akureyri. Frá vinstri: Guðjón Marteinsson tæknistjóri Norlandair, Arnar Friðriksson sölu- og markaðsstjóri félagsins og flugstjórarnir Kristján Þór Kristjánsson og Steindór Kristinn Jónsson. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Beechcraft King Air 250 flugvél bættist í flota Norlandair í dag. Tveir flugstjóra félagsins sóttu hana til Bandaríkjanna og lentu á Akureyrarflugvelli undir kvöld.

Vélin, sem hefur einkennisstafina TF-NLE, verður aðal sjúkraflugvél Norlandair þegar félagið tekur við því verkefni um áramótin. Vélina keypti Norlandair í Tampa í Flórídaríki, af fyrirtæki sem notaði hana sem einkaþotu. Þarlendur flugmaður ferjaði hana frá Tampa til Greenville í Suður-Karolínu, þar sem Steindór Kristinn Jónsson og Kristján Þór Kristjánsson, flugstjórar Norlandair, tóku við og flugu vélinni heim. Með í för var Guðjón Marteinsson tæknistjóri Norlandair.

Frá Greenville flugu þeir til Montreal í Kanada og þaðan til Goose Bay – Gæsaflóa – á Labrador í Kanada, þar sem þeir gistu síðustu nótt. Í morgun var flogið til Narsarsuaq á Grænlandi og þaðan sem leið lá til Akureyrar.

Slökkvilið Akureyrarflugvallar bauð hina nýju vél Norlandair velkomna í dag með „heiðursbunu“.