Að eflast og vaxa eftir ofbeldissamband
Að eflast og vaxa eftir að ofbeldissambandi lýkur… er það mögulegt? er yfirskrift fyrirlesturs sem fluttur verður á fimmtudaginn, 23. febrúar, en þar kynnir dr. Hulda Sædís Bryngeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri, niðurstöður doktorsrannsóknar sinnar sem hún varði við HA í lok síðasta árs.
Kynningin, einn svokallaðra Bakarís-fyrirlestra, fer fram í Brauðgerðarhúsinu í verslunarmiðstöðinni Sunnuhlíð og hefst kl. 16:00.
Í rannsókninni sögðu íslenskar konur frá þeim leiðum sem þær fóru til að ná að eflast og vaxa (e. post-traumatic growth) eftir að hafa verið beittar ofbeldi í nánu sambandi. Einnig lýstu þær þeirri eflingu og vexti sem þær upplifðu. „Ofbeldi í nánum samböndum er svo algengt að því hefur verið líkt við heimsfaraldur. Það er því brýnt að huga að því hvað tekur við hjá þolendum eftir að slíkum samböndum lýkur,“ segir í kynningu.
Bakarís-fyrirlestrarnir eru samstarfsverkefni AkureyrarAkademíunnar og Brauðgerðarhúss Akureyrar. Markmið þeirra er að kynna verkefni sem fólk hefur unnið að hjá AkAk, bjóða upp á viðburði í Sunnuhlíð og gefa bæjarbúum tækifæri til að fræðast og spjalla um fjölbreytt viðfangsefni.
- Um AkureyrarAkademíuna
- AkureyrarAkademían er fræða- og þekkingarsetur á Akureyri, stofnað árið 2006 og er aðsetrið í verslunarmiðstöðinni við Sunnuhlíð. „Við bjóðum einstaklingum upp á vinnuaðstöðu til að sinna sínum hugðarefnum og almenningi upp á viðburði, ýmist á eigin vegum eða í samstarfi við aðra. Frá upphafi höfum við staðið fyrir meira en 150 viðburðum umræðum sem hafa auðgað mannlíf og menningarstarf á Akureyri þar sem áhersla hefur verið lögð á að kynna fjölbreytt viðfangsefni, virkja almenning til þátttöku og stuðla að umræðum.“ segir í tilkynningu frá AkureyrarAkademíunni.