Áberandi fóðurprammi á Pollinum síðustu daga
Stór og mikill prammi sem verið hefur á Pollinum síðustu daga hefur vakið athygli fólks. Akureyri.net hefur fengið margar samhljóða fyrirspurnir: Hvað er eiginlega þarna á ferðinni?
Svarið er: Þetta er nýr fóðurprammi í eigu fyrirtækisins Háafells, sem stundar fiskeldi á Vestfjörðum. Pramminn, Kamsbnes, er smíðaður í Póllandi, þaðan sem danski dráttarbáturinn Valdemar dró hann. Leiðin liggur til Ísafjarðar en vegna slæms veðurs var ákveðið að halda í var hér á Pollinum.
Það er færeyska fyrirtækið GroAqua sem smíðar prammann, þótt það sé gert í Póllandi, að því er segir á Facebook síðu Háafells; „en hann er með HS stuðul uppá 5,5 metra sem þýðir að hann þolir öldur uppá minnsta kosti 11 metra, er sérstaklega hannaður fyrir ísingu og hefur stefni að framan.
Í tilkynningu á Facebook síðu Háafells sagði í apríl, þegar skrifað hafði verið undir samning um smíðina, að nýi pramminn verði staðsettur á nýju svæði Háafells í Kofradýpi, en fyrir á félagið fóðurprammann Ögurnes sem staðsettur er við Skarðshlíð í Ísafjarðardjúpi.
„Áhersla var lögð á að pramminn væri umhverfisvænn, bæði í orkubúskap og rekstri. Til dæmis er pramminn búinn bæði spenni til þess að geta tekið við rafmagni úr landi en einnig batterí kerfi, svokölluðu hybrid kerfi sem hægt er að nota þar sem landtengingar eru ekki mögulegar. Þegar hybrid kerfið er notað knýr batterí öll kerfin um borð, en ljósavélin er nýtt til þess að hlaða inn á batteríin. Með þessu má stytta keyrslutíma ljósa vélanna úr sólarhrings keyrslu niður í aðeins tvær til fjórar klukkustundir á sólarhring. Þessi ráðstöfun stór bætir ekki bara orkunýtni heldur dregur einnig úr eldsneytisnotkun, lækkar kolefnislosun og hávaðamengun,“ segir í tilkynningunni.
„Athygli vekur að pramminn er búinn sjóinntaki sem hægt er að nýta til vatnsfóðrunar, en það felur í sér að fóðrinu er dælt með sjó í stað þess að því sé blásið. Kostirnir við vatnsfóðrun eru sagðir vera mun minni orkunotkun þar sem aðeins þarf litlar dælur til að fleyta sjónum með fóðrinu og minna slit á rörunum, en nú slitna rörin yfir tíma vegna viðnáms fóðursins við rörin þegar því er blásið.“