Fara í efni
Fréttir

Áberandi fóðurprammi á Pollinum síðustu daga

Ljósmyndir: Þorgeir Baldursson

Stór og mikill prammi sem verið hefur á Pollinum síðustu daga hefur vakið athygli fólks. Akureyri.net hefur fengið margar samhljóða fyrirspurnir: Hvað er eiginlega þarna á ferðinni?

Svarið er: Þetta er nýr fóðurprammi í eigu fyrirtækisins Háafells, sem stund­ar fisk­eldi á Vest­fjörðum. Pramminn, Kamsbnes, er smíðaður í Póllandi, þaðan sem danski dráttarbáturinn Valdemar dró hann. Leiðin liggur til Ísafjarðar en vegna slæms veðurs var ákveðið að halda í var hér á Pollinum.

Það er færeyska fyrirtækið GroAqua sem smíðar prammann, þótt það sé gert í Póllandi, að því er segir á Facebook síðu Háafells;  „en hann er með HS stuðul uppá 5,5 metra sem þýðir að hann þolir öldur uppá minnsta kosti 11 metra, er sérstaklega hannaður fyrir ísingu og hefur stefni að framan.

Í prammanum er spennir fyrir landtengingu og sömuleiðis hybrid batterí pakki. Önnur nýjung er að í prammanum er sjóinntak fyrir vatnsfóðrun en Háafell fylgist náið með þróun á henni og stefnir á að skipta yfir í hana þegar færi gefst til.“
 

Í tilkynningu á Facebook síðu Háafells sagði í apríl, þegar skrifað hafði verið undir samning um smíðina, að nýi pramm­inn verði staðsett­ur á nýju svæði Háa­fells í Kof­ra­dýpi, en fyr­ir á fé­lagið fóðurpramm­ann Ögur­nes sem staðsett­ur er við Skarðshlíð í Ísa­fjarðar­djúpi.

„Áhersla var lögð á að pramm­inn væri um­hverf­i­s­vænn, bæði í orku­bú­skap og rekstri. Til dæm­is er pramm­inn bú­inn bæði spenni til þess að geta tekið við raf­magni úr landi en einnig batte­rí kerfi, svo­kölluðu hybrid kerfi sem hægt er að nota þar sem land­teng­ing­ar eru ekki mögu­leg­ar. Þegar hybrid kerfið er notað knýr batte­rí öll kerf­in um borð, en ljósa­vél­in er nýtt til þess að hlaða inn á batte­rí­in. Með þessu má stytta keyrslu­tíma ljósa vélanna úr sólarhrings keyrslu niður í aðeins tvær til fjór­ar klukku­stund­ir á sól­ar­hring. Þessi ráðstöf­un stór bætir ekki bara ork­u­nýtni held­ur dreg­ur einnig úr eldsneyt­is­notk­un, lækk­ar kol­efn­is­los­un og hávaðameng­un,“ seg­ir í til­kynn­ing­unni.

„At­hygli vek­ur að pramm­inn er bú­inn sjó­inn­taki sem hægt er að nýta til vatns­fóðrun­ar, en það fel­ur í sér að fóðrinu er dælt með sjó í stað þess að því sé blásið. Kost­irn­ir við vatns­fóðrun eru sagðir vera mun minni orku­notk­un þar sem aðeins þarf litl­ar dæl­ur til að fleyta sjón­um með fóðrinu og minna slit á rör­un­um, en nú slitna rör­in yfir tíma vegna viðnáms fóðurs­ins við rör­in þegar því er blásið.“