Fara í efni
Fréttir

Á brún Skálarkambs og í kirkju Matthíasar

Séra Svavar Alfreð Jónsson við lok kveðjumessunnar í Akureyrarkirkju - kirkju Matthíasar Jochumssonar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Kveðjumessa séra Svavars Alfreðs Jónssonar var í Akureyrarkirkju í gær, eins og Akureyri.net greindi frá. Hann kveður nú söfnuðinn eftir 23  ár sem sóknarprestur. Séra Svavar prédikaði í athöfninni og prédikunin birtist hér í heild, með góðfúslegu leyfi hans.

_ _ _

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Snemmsumars árið 2015 fór ég í mína fyrstu göngu um Hornstrandir í fylgd vina, meðal annars samstarfsmanna héðan úr kirkjunni. Þessi ferð var langþráð. Við sigldum úr Bolungarvík, tókum land í Hornvík, gengum fyrir Hafnarnes og Tröllakamb inn í Rekavík, þaðan um Atlaskarð og sáum þá ofan í botn Hælavíkur. Þegar við komum fram á brún hins snarbratta Skálarkambs blasti við fyrsti gististaðurinn, Hlöðuvík. Það var ógleymanleg sjón í fögru og björtu veðri. Fagurlega skapað Álfsfellið reis á mörkum Hlöðuvíkur og Kjaransvíkur. Ég sá yfir þetta allt þarna af Skálarkambinum, allt vestur í Almenninga. Húsin í Hlöðuvík kúrðu á bletti sem var áberandi grænni en umhverfið. Þar var búið að draga upp fána sem blakti í golu utan af fagurbláu hafi.

Andaktugur virti ég fyrir mér þessa dýrð. Hingað var ég kominn til að vitja rótanna. Langamma mín, Pálína Guðrún Pétursdóttir, bjó hér með fyrri manni sínum, Bjarna Jakobssyni, sem varð bráðkvaddur rétt fyrir utan Hlöðuvíkurbæinn árið 1893. Eftir stóð langamma með tvær dætur þeirra hjóna, hálfsystur ömmu minnar, þær Rebekku og Kristínu. Ég hafði lesið allt sem ég náði í um þessa sögu og þetta svæði, formæður og forfeður mína sem hér bjuggu og lengi séð það fyrir mér í hillingum. Nú horfði ég á þetta allt með augum fuglsins, á hið ósnortna, harðbýla, stórskorna en unaðsfagra land Hornstranda með öllum þess örlagasögum, skuggum og heiðríkju.

II

Ég á líka rætur í þessari kirkju. Þegar ég var strákur tók mamma mín mig hingað með sér til guðsþjónustu. Ég hafði aldrei verið viðstaddur slíka athöfn en stundum heimsótt pabba þegar hann var að spila undir borðhaldi á Hótel KEA hér neðan kirkjutrappanna. Þess má geta að fóstri pabba og afi minn, Alfreð Jónsson, hafði sína vinnuaðstöðu í innsta afkima gamla Stjörnu Apóteks undir kirkjutröppunum, þar sem hann hafði meðal annars þann starfa að hella lýsi á flöskur. Við eigum ýmislegt sameiginlegt, nafnarnir. Þegar ég heimsótti pabba á hótel KEA voru matsveinarnir oft svo vinalegir við son píanistans að þeir gáfu honum góðgæti úr eldhúsinu.

Í fyrstu messu minni hér í kirkjunni kom að því fyrir prédikun að séra Birgir hvarf í sínum fagra messuskrúða frá altarinu inn í skrúðhús. Þá spurði ég mömmu svo heyrðist um alla kirkju: „Hvert fór kokkurinn?“

Nú, þegar ég stend í prédikunarstólnum við lok formlegrar prestsþjónustu minnar hér, horfi yfir söfnuðinn og kirkjuna, líður mér dálítið eins og þegar ég stóð á brún Skálarkambs í júní fyrir átta árum. Ég vitja rótanna. Þessi kirkja hefur mótað mig. Sögurnar úr þjónustu minni rifjast upp, sorgir og gleði, mikil og ótrúleg örlög sem ég hef öðlast hlutdeild í og stórar og magnaðar sögur. Þetta hús er fullt af upplifunum og héðan eru margar af mínum helgustu minningum. Hér geyma loftin gleðihlátra og gólffjalirnar tár. Hér hef ég fengið að syngja inn jól og fagna páskum með ykkur. Hér hef ég fengið að finna þegar þessi helgidómur er kysstur sætt og hlýtt af himninum sjálfum enda er styttra héðan þangað upp en ef við hefðum látið vera að klífa kirkjutröppurnar.

III

Í guðspjalli dagsins fór Jesús með vinum sínum upp á fjall. Það á vel við í dag. Hér, frammi á brekkubrúninni, hef ég fengið að vera með Jesú. Ég hef skynjað nærveru hans. Oft hef ég fundið veikleika minn og hversu ónýtur þjónn ég er. Ég hef þurft að stika ótalmargar brattar tröppur og feta einstigi upp há fjöll sem virðast ókleif af láglendinu. Mig hefur óað við verkefnunum en hef fengið hjálp frá þeim sem mig styrkan gjörir.

Jesús og vinir hans fóru til að vera einir saman. Það að vera einn annars vegar og það að vera saman hins vegar eru auðvitað ákveðnar andstæður – en um leið er „ein og saman“ alveg frábærlega góð lýsing á því hvað það er að vera kirkja. Kirkja er samfélag einstaklinga sem eiga persónulegt samfélag við Guð, hver með sínum hætti. Eitt af því sem prestsstarfið hefur kennt mér er að fólk nálgast guðdóminn eftir ólíkum leiðum – og að Guð nálgast okkur eftir því sem hann telur hverjum og einum henta best. Hver hefur á því sitt lag eins og í mörgu öðru í lífinu. Að því leyti erum við ein frammi fyrir Guði. Hver sál er virt viðlits, hver einasta sál er merkileg, hver einasta sál hefur í sér mynd skaparans.

En þótt við séum á þann hátt ein í kirkjunni erum við þar líka saman. Það hef ég svo sannarlega fundið hér. Mitt lán er að hafa átt góða að. Mesta gæfan, bæði persónulega og í starfi mínu, er konan mín. Engum á ég meira að þakka – en á þó mörgum stórar þakkarskuldir að gjalda; börnunum mínum, foreldrum, systrum, tengdafólki, frændfólki og vinum. Ég gæti talað í allan dag um allar þær dásamlegu manneskjur. Ég hef fengið að vera einn hér en þó aldrei verið einn. Ekki bara fjölskylda og vinir hafa látið mig finna að ég er saman með öðrum. Líka kirkjan hefur verið dugleg við það. Hér í þessari kirkju hef ég átt alveg einstakt samstarfsfólk. Ég finn engin orð til að tjá þakklæti mitt fyrir það. Það hefur verið töfrum líkast. Takk, elsku vinir mínir! Og ekki bara í Akureyrarkirkju – kirkju Matthíasar Jochumssonar - hef ég átt samfélag og stuðning, heldur ennfremur í kirkjunni hér á svæðinu og á landsvísu. Og síðast en ekki síst hef ég átt yndislegan söfnuð sem tók mér frábærlega vel frá fyrstu augnablikum þjónustu minnar hér. Mér nægir enginn mannúðlegur ræðutími til að tjá þakkir mínar til ykkar. Og nú, þegar ég hef störf á nýjum vettvangi, er það enn mitt haldreipi að vita að enn er ég hluti af þessari mögnuðu heild, kirkjunni.

IV

Á fjallinu ummyndaðist Jesús fyrir augum þeirra, segir guðspjallið. Klæði hans urðu fannhvít og skínandi og fær enginn bleikir á jörðu svo hvítt gjört. Vinir Jesú sáu sýnir. Þeir sáu Elía og Móse, löngu dána menn, á tali við Jesú. Þeir sáu undarlegt ský og heyrðu rödd berast frá því.

Sagt er að þegar Guðjón Samúelsson hafi sest niður til að teikna Akureyrarkirkju hafi hann haft Vaðalfjöll til fyrirmyndar að turnunum. Vaðalfjöll eru á fjallinu yfir Skógum, þar sem séra Matthías fæddist. Þjóðskáldið lýsti Vaðalfjöllum þannig að af þeim gæfist „eitt hið fegursta og mesta útsýni á Vesturlandi”. Þannig virka fjöllin. Þaðan sjáum við ýmislegt, sem er okkur ekki sýnilegt annars staðar. Þar sjáum við með augum fuglsins.

Mér finnst að kirkjan eigi að vera eins og fjöllin. Eins og Vaðalfjöll, Skálarkambur, Grófargilshöfðinn og fjallið sem Jesús gekk á með lærisveinunum. Kirkjan á að hjálpa okkur að sjá með augum fuglsins, koma auga á það sem við ekki getum séð á láglendinu og af flatneskjunni. Hún á að sýna okkur Jesú á óvæntum og nýjum stöðum. Hún á að hefja okkur upp. Og hún á að hefja þau upp sem lægst standa. Hún á að gera öllum kleyft að horfast í augu og eiga raunverulegt samfélag. Hún á að hjálpa okkur að skilja hjartans tungumál og tala saman á því máli. Hún á að stuðla að því að við finnum Krist í samtíð sem stundum virðist helst vilja hafa hann týndan.

V

Þegar ég horfði af Skálarkambinum sumarið 2015 átti ég að baki merkilega göngu með góðum vinum. Framundan var spennandi ferð.

Þið kunnið vel að kveðja, kæru vinir! Takk fyrir hvað þið hafið verið mér góð. Mér þykir óendanlega vænt um það – en í dag megum við ekki bara vera upptekin af því sem er liðið. Við skulum líka líta fram á veginn, fram af brekkubrúninni, yfir Hlöðuvík og Kjaransvík og vestur á Almenninga. Framundan er spennandi ferðalag og nýir tímar með nýjum fararstjóra. Ég tekst á við ný verkefni og þessi söfnuður líka. Þess vegna látum við ekki nægja að kveðja í dag. Við heilsum því sem framundan er. Hér er valin manneskja í hverju rúmi. Hér þjóna tveir alflottustu prestar þjóðkirkjunnar, báðir gull í gegn og það sama er svo sannarlega hægt að segja um allt annað starfsfólk þessarar kirkju, sóknarnefndina og aðra velunnara kirkjunnar. Í dag biðjum þeim blessunar og óskum okkur til hamingju með þetta góða fólk. Mikið eigum við gott!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.