Fara í efni
Fréttir

900 mótmæltu áformum um lokun Glerárlaugar

Glerárlaug - innisundlaugin við Glerárskóla. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Nærri 900 manns skrifuðu undir skjal þar sem mótmælt er fyrirhugaðri lokun Glerárlaugar fyrir almenningi. Samkvæmt tillögum í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir næsta ár verður laugin einungis nýtt til kennslu og þannig eiga að sparast um 18 milljónir króna á árinu.

Anna Dóra Gunnarsdóttir og Margrét S. Kristjánsdóttir fjölluðu um málið í grein sem Akureyri.net birti á dögunum og í vikunni afhentu þær, ásamt Ástu Sigurðardóttur, undirskriftalistana sem um ræðir. Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar, tók við listunum í Ráðhúsi bæjarins.

Á mótmælaskjalinu segir að það gangi þvert gegn stefnu um heilsueflandi samfélag og lýðheilsu bæjarbúa, verði sundlauginni lokað. „Í nokkra mánuði á þessu ári var ekkert viðunandi aðgengi að lauginni vegna framkvæmda á lóð og aðliggjandi götum,“ segir á skjalinu, og tekið fram að það hafi komið sér illa fyrir marga fastagesti.

Rafrænn kynningarfundur

Vert er að geta þess að fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar verður kynnt á rafrænum íbúafundi á Zoom næsta þriðjudag, 7. desember, klukkan 17.00. Eftir kynningu verður opnað fyrir spurningar og verða bæjarstjóri og bæjarfulltrúar til svara, að því er fram kemur á vef bæjarins.

Smellið hér til að lesa grein Önnu Dóru og Margrétar á Akureyri.net um sundlaugarmálið.