Fara í efni
Fréttir

88 smit í gær, hlutfall jákvæðra sýna eykst

Á Norðurlandi eystra eru nú 12 í einangrun vegna kórónuveirusmits og 19 í sóttkví. Í gær greindust 88 kórónuveirusmit innanlands, þar af voru 54 hinna smituðu utan sóttkvíar. Af þeim sem greindust var 71 bólusettur, tveir hálfbólusettir en 14 höfðu ekki fengið bóluefni.

Heldur færri sýni voru tekin í gær en dagana þar á undan, nálægt 3.500, en hlutfall jákvæðra sýna er að aukast og hefur ekki verið hærra síðan í mars. Hlutfall jákvæðra sýna var 4,58% í gær.

Nú eru 548 í einangrun á landinu og 1.635 í sóttkví - um 400 fleiri en daginn áður. 

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, óttast að þessi bylgja faraldursins verði sú stærsta síðan faraldurinn hófst og geti haft miklar samfélagslegar afleiðingar, þótt færri veikist alvarlega. Þetta kemur fram í viðtali við RÚV. 

„Ég held að við gætum alveg verið að horfa upp á stærri bylgju núna. Við erum líka að taka fleiri sýni núna en áður og margir að greinast sem eru með lítil eða engin einkenni þannig að maður þarf aðeins að túlka þetta út frá því en við getum alveg séð verulegar afleiðingar af þessari útbreiðslu, ekki bara vegna alvarlegra veikinda heldur vegna útbreiðslunnar sem við þurfum að tempra, setja fólk í einangrun og sóttkví út af því að þeir eru kannski að vinna með viðkvæma einstaklinga sem að við viljum alls ekki að smitist, þannig að afleiðingar geta verið dálítið miklar, þjóðfélagslega,“ sagði Þórólfur við RÚV.

Smelltu hér til að sjá allt um samkomutakmarkanir sem tóku gildu á miðnætti.

Hér eru nánari upplýsingar um stöðuna