460 milljóna samningur um snjóflóðavarnir
Samið hefur verið við Ferro Zink á Akureyri um gerð snjóflóðavarna úr stáli fyrir ofan byggðina á Siglufirði. Verkið verður unnið á næstu þremur árum og að þeim tíma liðnum verður lokið nauðsynlegum framkvæmdum við varnir ofan byggðarinnar.
Ferro Zink er einn stærsti innflytjandi stáls til Íslands og hefur komið að öllum snjóflóðavörnum hér á landi í tæpa tvo áratugi. „Öll slík verk eru boðin út og við höfum jafnan átt besta tilboðið,“ segir Steinar Magnússon, framleiðslustjóri fyrirtækisins við Akureyri.net. Steinar nefnir framkvæmdir í Neskaupstað, Ólafsvík, á Ísafirði og Patreksfirði, auk Siglufjarðar. Það eru Ríkiskaup sem bjóða verkið út fyrir hönd Ofanflóðasjóðs.
Að sögn Reynis B. Eiríkssonar, framkvæmdastjóra Ferro Zink, er samningurinn nú upp á 460 milljónir króna en Ferro Zink hefur unnið að snjóflóðavörnum fyrir alls um tvo milljarða.
Fyrirtækið hefur í mörg ár verið í samstarfi við sérfræðinga í Austurríki og á Ítalíu, sem sérhæfa sig í slíkum snjóflóðavörnum. Alls verða notuð 1.000 tonn af stáli í stoðvirkin, eins og varnirnir eru nefndar, sem sett verða upp ofan byggðarinnar á Siglufirði; það er ekkert smáræði enda kemur efnið til landsins í 50 stórum gámum. Stálgrindurnar eru smíðaðar ytra en ryðvarðar – galvaníseraðar, eins og það er kallað – hjá Ferro Zink á Akureyri.