Fara í efni
Fréttir

33 ný iðnaðarbil auglýst til útleigu

Arnar Tryggvason hjá B.E Húsbyggingum með nýju iðnaðarbilin í baksýn. Stutt er þaðan í verslanir á Norðurtorgi og svo er Byko í göngufæri.

B.E. Húsbyggingar bjóða nú 33 iðnaðarbil til útleigu í nýju atvinnuhúsnæði á Akureyri. Fyrirtækið hefur hingað til sérhæft sig í byggingu á íbúðarhúsnæði en færir sig yfir á nýjar slóðir með þessu verkefni.

„Við höfum unnið að þessu verkefni í töluverðan tíma og höfum lagt áherslu á að skapa sveigjanlegt rými sem hentar bæði fyrirtækjum og einstaklingum,“ segir Arnar Tryggvason, markaðs- og sölustjóri hjá B.E. Húsbyggingum. Eftir því sem Arnar best veit er þetta í fyrsta sinn sem boðið er upp á útleigu á svona mörgum nýjum iðnaðarbilum á Akureyri, bæði til styttri eða lengri tíma. Segir hann að með þessu verkefni aukist framboð á sveigjanlegu atvinnuhúsnæði á Akureyri til muna, sem getur reynst mikilvægur kostur fyrir bæði smærri og stærri rekstraraðila.

Við Týsnes 22 eru nú 33 iðnaðarbil boðin til leigu á vegum B.E Húsbygginga. Líklega er þetta í fyrsta sinn sem boðið er upp á útleigu á svona mörgum nýjum iðnaðarbilum á Akureyri, bæði til styttri og lengri tíma. Í boði eru tvær stærðir af bilum sem hægt er að breyta í atvinnuhúsnæði, nota sem iðnaðarhúsnæði, stað fyrir áhugamálið eða bara sem geymslu.

Mikill áhugi 

„Við höfum hingað til aðeins verið í því að byggja og selja, svo þetta er í fyrsta sinn sem við bjóðum húsnæði til leigu. Við sjáum mikil tækifæri í þessum vel staðsettu iðnaðarbilum sem henta fyrir margvíslega starfsemi. Það eru t.d. margir einstaklingar með vélsleða hér í bænum eða buggybíla sem vantar pláss undir sín tæki. Við erum nýfarnir af stað að auglýsa þetta en við höfum nú þegar fengið fjölda fyrirspurna og höfum nú þegar leigt nokkur bil út. Það eru greinilega margir sem hafa áhuga, bæði einstaklingar og fyrirtæki sem þurfa gott vinnu- og geymslurými,“ segir Arnar.

Bilin, sem eru við Týsnes 22, eru í tveimur stærðum, annaðhvort 27 fm eða 51 fm. Öll eru þau með geymslulofti og búin rafmagni, hita og vaski. Þá er aðgangur að sameiginlegu salerni fyrir allt húsið. „Við höfum lagt mikið upp úr því að bilin uppfylli allar helstu kröfur nútímalegs atvinnuhúsnæðis. Það skiptir máli að fólk geti gengið að því vísu að aðstaðan sé góð og að rekstrarumhverfið sé hagstætt,“ segir Arnar. Í boði er að leigja bilin bæði til styttri eða lengri tíma en ódýrast er að leigja bilin í langtímaleigu.

Verið er að leggja lokahönd á klæðningu hússins. Allt er innifalið í leigunni, snjómokstur á plani, þrif á salerni, hiti og rafmagn. 

Bilin ekki ætluð til búsetu

Akureyri.net fjallaði nýlega um það að mikið af iðnaðarbilum væru til sölu í bænum og í þeirri grein spáði fasteignasali því að fólk færi í meira mæli að búa í iðnaðarhúsnæði þar sem hörgull væri á minni íbúðum. Þegar Arnar er spurður út í það hvort bilin henti til búsetu svarar hann því neitandi. „Þetta eru vinnu- og geymslurými, ekki íbúðir. Við höfum sett skýrar reglur um notkun bilanna og gerum leigutökum ljóst að þau eru eingöngu ætluð til atvinnustarfsemi eða geymslu og ekki til búsetu.“

Til að auðvelda fólki að kynna sér bilin og bóka þau til leigu hefur fyrirtækið sett upp heimasíðuna Leigubil.is, þar sem allar upplýsingar um rýmin eru aðgengilegar. „Við hvetjum alla sem hafa áhuga á iðnaðarbilum til að skoða síðuna okkar eða hafa samband beint við okkur. Við tökum vel á móti fólki sem vill koma og skoða aðstöðuna,“ segir Arnar að lokum.

B.E Húsbyggingar er fyrirtæki með um 25 ára reynslu af byggingu og sölu á íbúðahúsnæði en fyrirtækið reynir nú fyrir sér með útleigu á iðnaðarbilum.