32 nýjar íbúðir fyrir öryrkja á fimm árum
Brynja leigufélag hyggst taka í notkun 32 nýjar íbúðir fyrir öryrkja á Akureyri á næstu árum. Viljayfirlýsing Brynju og Akureyrarbæjar þar að lútandi var undirrituð í gær.
„Brynja á nú þegar 42 íbúðir í bænum sem leigðar eru einstaklingum eða Akureyrarbæ í tengslum við rekstur á íbúðaúrræðum fyrir öryrkja. Stefnt er að því að teknar verði í notkun 32 nýjar íbúðir á árunum 2022 til 2026, eða sex til sjö íbúðir að meðaltali á ári, innan ramma laga nr. 52/2016 um almennar íbúðir sem byggir á 18% stofnstyrk frá ríkinu og 12% stofnstyrk frá viðkomandi sveitarfélagi, í þessu tilfelli Akureyrarbæ,“ segir í frétt á vef sveitarfélagsins.
Áætlaður kostnaður við verkefnið er um 280 milljónir króna á ári á þessu fimm ára tímabili „og myndi það koma verulega til móts við þarfir öryrkja sem eru á biðlista eftir félagslegu húsnæði á Akureyri, bæði hjá Akureyrarbæ og Brynju.“
Ekki er ljóst hvernig húsnæði verður um að ræða en þörfin verður greind; hve mikið er talið þurfa af stökum íbúðum í stærri fjölbýlishúsum, minna fjölbýli með góðu aðgengi fyrir fatlaða og raðhús með góðu aðgengi fyrir fatlaða, svo dæmi séu nefnd. „Þá þarf að skoða hlutfallið milli 2ja og 3ja herbergja íbúða. Almennt hefur Brynja horft til þess að 2/3 af safni félagsins séu 2ja herbergja íbúðir og að 1/3 sé 3 herbergja íbúðir.“
Gott samstarf
„Akureyrarbær og Brynja haft átt gott samstarf um úthlutun þeirra íbúða sem eru í eigu Brynju á Akureyri. Aðilar eru sammála um að formgera þetta samstarf enn frekar og binda í samstarfssamning þar sem skuldbindingar hvors aðila um sig eru betur skilgreindar og skýrðar. Viðræður á þessum grunni eru hafnar og skal þeim lokið eigi síðar en 15. október 2022,“ segir á vef bæjarins.
Mögulegt er að Akureyrarbær kaupi einhverjar af þeim eignum sem Brynja leigir sveitarfélaginu. „Þetta er gert til einföldunar og til að tryggja bætta hagkvæmni í rekstri eignasafnsins. Ef til sölu íbúða er ætlunin að bæta sama fjölda við markmið viljayfirlýsingarinnar um uppbyggingu á húsnæði fyrir öryrkja á Akureyri sem undirrituð var í gær.“